Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, segist gera greinarmun á þeim þingmönnum flokksins sem sögðu og þeim sem þögðu í klaustursmálinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi verið á meðal þeirra sem þögðu.
Hann hefði átt að grípa inn í tal hinna þingmanna flokksins, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, sem ræddu meðal annars með kynferðislegum og niðrandi hætti um Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta kom fram í máli Birgis í Silfrinu í dag.
Þar sagði Birgir að framferði sexmenninganna sem voru á Klaustri 20. nóvember væri andstætt kristilegum gildum. Hann sagði að málið verði rætt á flokksráðsfundi Miðflokksins í janúar. Þeir þingmenn hans sem tóku þátt í samsætinu á Klaustri þurfi að gera það upp við sig hvort þeir segi af sér eða ekki eftir samtal við sína nánustu og grasrót flokksins.
Enginn sagt af sér
Þingmennirnir sex sem ræddu saman á fundinum á Klaustur bar, 20. nóvember, voru Sigmundur Davíð, Bergþór, Gunnar Bragi og Anna Kolbrún Árnadóttir, allt þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Þeir tveir síðastnefndu hafa verið reknir úr Flokki fólksins, og Bergþór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi. Enginn þingmanna hefur sagt af sér, og enginn hefur það í hyggju.
Lilja Alfreðsdóttir var í samræðunum meðal annars kölluð „helvítis tík“ af Gunnari Braga Sveinssyni, og fleiri niðrandi og kynferðisleg orð féllu um hana. Aðrir þingmenn voru líka hæddir og níddir. Á meðal þeirra voru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Logi Einarsson og Oddný Harðardóttir úr Samfylkingu og Silja Dögg Gunnarsdóttir úr Framsóknarflokki. Þá gerði hópurinn grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmanni og baráttukonu fyrir auknum mannréttindum fatlaðra, sem þjáist að sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún kallaði hana meðal annars „Freyju Eyju“ og í kjölfarið framkallaði einhver úr hópnum hljóð sem hefur verið sagt vera selahljóð.