Auglýsing

Panamaskjölin eru stærsti pólitíski skandall Íslandssögunnar. Í kjölfar þeirra neyddist forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem hafði verið opinberaður í skjölunum sem kröfuhafi í bú föllnu bankanna og aflandsfélagaeigandi, til að segja af sér. Í könnun sem MMR gerði í kjölfar þeirra sögðust 81 prósent landsmanna ekki treysta Sigmundi Davíð. Í könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var á þeim tíma sem leið frá því að sérstakur Kastljósþáttur um skjölin var sýndur og þar til Sigmundur Davíð steig til hliðar kom fram að 78 prósent landsmanna vildi að hann myndi segja af sér.

Sigmundur Davíð fór í frí en snéri aftur nokkrum mánuðum síðar. Þá vildi hann taka aftur við sem forsætisráðherra. Í millitíðinni hafði Sigmundur Davíð nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að hann væri fórnarlamb samsæris. Hann hefði ekki gert neitt rangt. Hinir höfðu þvert á móti beitt hann ranglæti.

Auglýsing
Sagan sem hann flutti var í grófum dráttum þessi: erlendir vog­un­ar­sjóðir sem áttu kröfur í bú föllnu bank­anna á Íslandi, og sér­stak­lega vog­un­ar­sjóðs­stjór­inn George Soros, ákváðu að losa sig við Sig­mund Dav­íð. Ástæðan var hversu stað­fastur hann hafi ver­ið í baráttu sinni gegn kröfuhöfum. Í Icesave. Í því að koma í veg fyrir að Íslands gengi í Evrópusambandið. Á Útvarpi Sögu voru blaða- og frétta­menn sem unnu að umfjöllun um málið ásak­aðir um mútu­þægni upp á 800 millj­ónir króna og sagt að þeir hefðu gerst sekir um land­ráð.

Pólitísk lífgjöf

Endurkoman mistókst og Sigurður Ingi Jóhannsson sigraði Sigmund Davíð í ótrúlega dramatískum formannsslag í Framsóknarflokknum stuttu síðar. Leiðtoginn hafði verið jaðarsettur innan eigin flokks. Þótt hann héldist á þingi voru áhrif hans enginn. Formaðurinn fyrrverandi tók nær engan þátt í þingstörfum. Og þannig yrði það út kjörtímabilið að óbreyttu. Sigmundur Davíð stofnaði málfundafélag áhugamanna um sig sjálfan sem hittist reglulega til að hylla leiðtogann, en var augljóslega ekki líklegt til pólitískra stórræða.

En þá fékk Sigmundur Davíð pólitíska lífgjöf í formi uppreist-æru málsins sem sprengdi ríkisstjórn. Boðað var til kosninga með mánaðarfyrirvara haustið 2017. Og upprisan gat hafist.

Sigmundur Davíð sagði sig úr Framsókn og stofnaði Miðflokkinn utan um sjálfan sig. Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, orðaði það ágætlega í sjónvarpsþætti Kjarnans skömmu eftir að tilvist Miðflokksins var opinberuð þegar hann sagði að „fyrir Sig­mund Davíð skiptir mjög miklu máli að koma þremur helstu mál­efnum flokks hans á fram­færi. Sem eru Sig­mund­ur, Davíð og Gunn­laugs­son.“

Miðflokkurinn fór í kosningar með ákaflega veika málefnastöðu og illa útfærð lýðskrumsloforð um að gefa fólki hluti í bönkum sem það átti nú þegar. En þrátt fyrir að Sigmundur Davíð hefði verið opinberaður í Panama-skjölunum, að fyrir lægi að hann hefði verið kröfuhafi á meðan að hann samdi við kröfuhafa, að hann hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur og að hann hefði varla mætt í vinnuna mánuðum saman þá vann Sigmundur Davíð kosningasigur. Flokkur hans, Miðflokkurinn, fékk mesta fylgi sem nýr flokkur hefur nokkru sinni náð í þingkosningum á Íslandi.

Hræðsluáróður vakningarkirkju

Endurkoman var að ganga glæsilega. Líklega hefur enginn stjórnmálamaður í hinum vestræna heimi náð að stíga upp úr innlendri og alþjóðlegri smánun með jafn hröðum hætti og Sigmundur Davíð. Hópurinn í kringum hann þéttist og þéttist og líktist frekar fylgismönnum trúarleiðtoga í vakningarkirkju en fólk sem starfaði í hugmyndafræðilega ígrunduðum stjórnmálaflokki sem vildi bæta samfélag manna. Ímyndafræðin var öll sú sama og Sigmundur Davíð hafði látið innleiða í Framsóknarflokkinn, þar sem áhersla var á hið íslenska og hreina. Hross í flokksmerkinu, karlakórar að syngja undir opnun á viðburðum flokksins á meðan að kynningarmyndband tekið úr dróna af íslenskri náttúru var spilað.

Auglýsing
Öll stefna var nægilega óljós til að hægt væri að túlka hana að vild. Markhópurinn var hið hrædda Ísland. Hóparnir sem töldu alþjóðavæðinguna hafa skilið sig eftir og vildu fá gamla Íslandið sitt aftur. Fólk sem hræðist útlendinga. Evrópusambandið. Minnihlutahópa. Tæknivæðinguna.

Nýjasta útspilið var innihaldslaus hræðsluáróður vegna innleiðingar þriðja orkupakkans í samstarfi við ritstjóra Morgunblaðsins, sem augljóslega lítur á Sigmund Davíð sem einhvers konar sporgöngumann sinn. Öll pólitíkin var fleygapólitík. Sem leggur áherslu á að sundra. Stilla hópum upp gagnvart hvorum öðrum. Og ráðast svo á hinn hópinn sem landráðamenn.

Ef þú ert ekki með Sigmundi Davíð þá ertu óvinur okkar, var strategía Miðflokksins.

Takk fyrir að niðurlægja mig

Fólkið sem safnaðist í kringum Sigmund Davíð tilbað hann. Og flest gerir það ennþá. Á Klausturbarsupptökunum segir Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, til að mynda:  „Þú ert svo góður maður Sigmundur.“ Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, tekur við og segir: „Það er þinn versti löstur hvað þú ert allt of góður maður.“

Lotning Gunnars Braga fyrir Sigmundi Davíð er meira að segja svo mikil að hann fagnaði því þegar leiðtoginn lítillækaði hann. Í frásögn af upptökunni sem var rakin í Kvenna­blað­inu er eftirfarandi haft eftir Gunnari Braga: „Ég held að Sig­mundur sé, eini mað­ur­inn sem hann hefur skammað fyrir framan heila rík­is­stjórn,[...]Hann hund­skamm­aði mig fyrir framan rík­is­stjórn­ina. Ég var svo glað­ur, ég var svo ánægður með að hann skyldi sýna þessum fávitum í rík­is­stjórn­inni að honum er bara ekk­ert sama hvernig maður hegðar sér og vinna. Hann grill­aði mig fyrir framan alla hina ráð­herrana. Ég kom til hans dag­inn eft­ir, eftir rík­is­stjórn­ar­fund­inn (og sagð­i): frá­bært, gerðu þetta aft­ur! Taktu hina fyrir líka! Hann hélt ég væri geð­veik­ur, sko.“

Margháttaður skaði

Nú hefur yfirburðamaðurinn verið opinberaður enn og aftur með birtingu upptöku þar sem má heyra hann og helstu lærisveinana úthúða og níða aðra stjórnmálamenn, fatlaða, samkynhneigða og fjölmarga aðra.

Hann hefur verið opinberaður sem kvenhatari. Sem pólitískur hrossakaupmaður. Líkt og fyrrverandi samstarfsmaður hans og vinur, og eitt helsta fórnarlamb drykkjusamlætis Miðflokksþingmannanna, Lilja Alfreðsdóttir, sagði þá hefur hann verið opinberaður sem ofbeldismaður.

Áður hafði hann oft verið opinberaður sem einstaklingur ófær um að taka nokkra ábyrgð á því sem hann segir, gerir eða verður fyrir. Maður sem talar fyrst og síðast í hálfkveðnum og óræðum vísum um samsæri fjölmiðla, erlendra peningamanna, Framsóknarflokksins og allra hinna gegn sér án þess að hafa dug í sér að nefna nokkurn tímann sértæk dæmi.

Í könnun sem birt var í byrjun viku kom fram að 86 prósent landsmanna vilja að Sigmundur Davíð víki. Það eru fleiri en eftir opinberum Panamaskjalanna. Fylgi Miðflokksins mælist 4,3 prósent og hefur aldrei verið minna.

Atburðirnir tveir, Klaustursmálið og Panamaskjölin eiga þrennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi snúast þeir báðir að stórum hluta um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Í öðru lagi hafa þeir valdið Íslandi umtalsverðum alþjóðlegum skaða vegna hræðilegrar umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum á borð við BBC og New York Times. Í þriðja lagi hafa þeir leitt af sér að traust almennings á stjórnmál og stjórnmálamenn hefur beðið varanlega skaða af.

Leikbókin

„Ég bara skil ekki hvert íslenskt samfélag er komið. Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til upphefja sjálfan sig,“ sagði eiginkona Sigmundar Davíðs í ummælum á samfélagsmiðli. Hún stendur með sínum manni og finnst hann vera fórnarlamb.

Það finnst honum sjálfum líka og öll hans málsvörn snýst um að drepa málinu á dreif. Að ýja að því að aðrir séu miklu verri en hann og hafi sagt miklu ljótari hluti. 

Auglýsing
Tilgangurinn gengur út á að gera málið almennt í stað þess að það haldist sértækt. Að koma því til skila að Miðflokksþingmennirnir og nú flokkslausu þingmennirnir sem sátu með þeim séu ekki þeir einu sem séu skíthælar, heldur séu allir skíthælar. Með því reynir Sigmundur Davíð að draga allt Alþingi Íslendinga niður í sitt svað. Og um leið vonast hann eftir einhverri meðaumkun yfir því hvað það sé agalegt einelti að fjalla um það þegar opinberar persónur, sem um tíma voru valdamestu menn landsins, úthúða fólki í almannarými. Í þeirri tilraun kristallast svo greinilega að honum er alveg saman um almannahag, það eina sem skiptir Sigmund Davíð máli er Sigmundur Davíð.

Þessi leið mun ekki ganga. Og á endanum mun Sigmundur Davíð hætta henni og forherðast. Hann þrífst enda á átökum. Þau valdefla hann. Sigmundur Davíð mun verða enn harðari popúlisti og flokkurinn hans verða fyrst og síðast fyrirbæri sem stendur gegn allri pólitískri rétthugsun og athvarf fyrir þá sem þola ekki „góða fólkið“.

Hvert er íslenskt samfélag komið?

Og hvert er íslenskt samfélag þá komið? Vonandi er það komið þangað að ofbeldismenn verða sviptir dagskrárvaldi. Að menn sem fyrirlíta konur, fatlaða og samkynhneigða verði ekki settir í stöðu til að ákvarða hvernig aðstæður þeirra hópa eigi að vera. Vonandi er það komið þangað að samræður um greiðastarfsemi um veitingu sendiherrastöðu, og fundir sem haldnir voru til að innheimta þá greiða, verði rannsakaðir með viðeigandi hætti af viðeigandi rannsóknaraðila.

Vonandi er íslenskt samfélag komið þangað að samþingmenn þessara manna hafi þolgæði og staðfestu til að halda þeim út úr hlýjunni og senda þar með skýr skilaboð um að svona hátterni sé með öllu óboðlegt og  verði ekki liðið. Ef stjórnmálamennirnir ráða ekki við slíkt þá munu þeir normalisera það athæfi sem átt hefur sér stað. Alveg eins og þeir gerðu eftir Panamaskjölin.

Ef þingheimi tekst ekki að finna leið til að skýla fórnarlömbum ofbeldismanna frá því að þurfa að deila þing- og nefndarfundum með þeim daglega þá er Ísland komið á þann stað að stjórnmálamenn geti gert nánast hvað sem er án afleiðinga. Það má misfara með opinbert fé, eiga peninga í skattaskjólum, sleppa því að borga skatt og brjóta lög úr ráðherrastól. Það má leyna almenning og fjölmiðla upplýsingum og hóta nafngreindum fjölmiðlum lögsóknum í aðdraganda kosninga. Það má svindla í kosningum. Og nú kemur í ljós hvort það megi atyrða og niðurlægja nafngreint fólk án afleiðinga.

Á þá niðurstöðu treystir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Að stjórnmálin verði dregin niður í hans svað í stað þess að hann stígi frá til að gefa þeim tækifæri til að batna.

Sigmundur Davíð mun nefnilega ekki hætta í stjórnmálum né á þingi. Það er ómögulegt. Persónuleikinn og sjálfsálitið leyfa það ekki.

Miðflokkurinn yrði sömuleiðis örendur strax, enda ekki hægt að halda sólkerfi gangandi ef sól þess er fjarlægð.

Þannig er staðan. Og við skulum öll fara að venjast henni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari