Auglýsing

Nokkrir þingmenn fóru á lítinn bar á þriðjudag í síðustu viku, á meðan þeir áttu að vera í vinnunni, til að drekka sig fulla. Þar voru þeir teknir upp af aðila sem sat í námunda við þá og þeirri upptöku komið á Stundina og DV, sem hefur birt mikið magn frétta úr þeim. Það sem hér kemur á eftir er að mestu byggt á þeim fréttum.

Í hópnum er fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra hennar, sem var sem slíkur um tíma einhverskonar andlit Barbershop ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um jafnrétti kynjanna. Slíkar ráðstefnur snúast fyrst og síðast um að virkja karla gegn kvenfyrirlitningu og karlrembu, meðal annars í lokuðum rýmum. Að standa til dæmis upp gegn því sem forseti Bandaríkjanna kallaði „búningsherbergjatal“ þegar hann gortaði sig af því að grípa í píkur kvenna. Þetta er mikilvægt að muna áður en lesið er áfram.

Þingmennirnir koma úr tveimur flokkum, Miðflokki og Flokki fólksins. Um var að ræða sex manna hóp, fimm karla og eina konu. Flokkum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, lýsti á drykkjufundinum sem samvinnuflokkum. Stjórnmálaflokkum sem væru setnir af karlmönnum „á sömu línu í öllum meginmálum og við viljum vinna með þeim. Og við viljum ekki að einhver Inga Sæland taki af þeim heiðurinn sem þeir eiga.“

Auglýsing
Hann bætti við að hann vildi að „þessi hópur hérna hafi það að leiðarljósi að þeir sem standa með hópnum séu virtir af því og aldrei sviknir þegar á reynir.“

Sigmundur Davíð bauð Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins, velkomin í pólitík samtalinu. Um leið var að hann, í ljósi opinberana síðustu daga, að bjóða okkur öll velkomin í dimmustu anga hennar.

Kvenfyrirlitningin

Í þessu drukkna en pólitískt drekkhlaðna spjalli þingmannanna, var farið yfir ýmislegt. Eitt var þó mjög afgerandi, stæk kvenfyrirlitning sem birtist sérstaklega gagnvart starfandi stjórnmálakonum.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kallaði Ingu Sæland „húrrandi klikkaða kuntu“. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, sagði um formann sinn: „Hún getur þetta ekki. Hún getur talað um þetta, hún getur grenjað um þetta, en hún getur ekki stjórnað.“

Hópurinn tók líka Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingar og fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrir. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði: „Oddný er ekkert ágæt, hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, hún kann ekki neitt, hún getur ekki neitt.“

Þingmenn Miðflokksins sem voru viðstaddir, ofangreindir þrír karlar og Anna Kolbrún Árnadóttir, sem var formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti kynjanna 2013–2016 og er formaður Jafnréttissjóðs Íslands, fóru svo að velta því fyrir sér hverjum orðið „cunt“ lýsti best á Alþingi. Niðurstaða þeirra var Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Anna Kolbrún taldi hana hættulega og Bergþór sagði um Silju að hún væri „ótraust kona“.

Svo kallaði Gunnar Bragi Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins og núverandi verkefnastjóra stjórnarskrárendurskoðunar, „kræfa kerfiskellingu“.

Fyrirlitningin gagnvart fyrrverandi samherja

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, starfaði náið með Sigmundi Davíð árum saman. Fyrrverandi samherjar hennar virðast mjög hneykslaðir á því að hún hafi valið sérfræðing, Jón Pétur Zimsen fyrrverandi skólastjóra Réttarholtsskóla, í stöðu aðstoðarmanns. „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina! Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni,“ sagði Gunnar Bragi um Lilju. Áður hafði hann sagt að hún hefði „ engan kynþokka“ og kynþokka sem væri „einn og þrettán“.

Í frásögn Stundarinnar af umræðum mannanna um Lilju er haft eftir Sigmundi Davíð að hann geti sjálfum sér um kennt um þá stöðu sem uppi sé varðandi Lilju. „Ég er búinn að láta þessa konu yrða á mig aftur og aftur.“

Auglýsing
Bergþór sagði þá: „Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða[...]Og hún hefur teygt ykkur miklu lengur. Ég er bara nýbúinn að kynnast henni. Þegar við hittumst í skötuveislunni fyrir nokkrum árum þá vissi ég ekki að hún væri til.“

Sigmundur Davíð sagði þetta rétt hjá Bergþóri. „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“ Einhverjir úr hópnum bættu við „Who the fuck is that bitch?“ og „Fuck that bitch“. „Þú getur riðið henni, skilurðu,“ sagði Bergþór og virtist, samkvæmt frásögn Stundarinnar, einnig vera að vísa til Lilju.

#MeToo-fyrirlitningin

Kynferðislegu ummælin um Lilju voru sannarlega ekki þau einu þess eðlis sem féllu í samtalinu. Um ónefnda stjórnmálakonu úr Sjálfstæðisflokknum sagði Gunnar Bragi að hún væri „helvíti sæt stelpa.“ Bergþór bætti við: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“ Og Sigmundur Davíð lokaði leikþættinum með því að segja að á þeim forsendum „ segi ég að hún hrynji niður listann,“ og átti þar við framboðslista Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum.

Síðar sagði Anna Kolbrún það heilagan sannleik að „stelpur eru að meirihlutanum talnablindnar“. Gunnar Bragi spurði þá hvort það væri ástæðan fyrir því að þær vita ekki hjá hvað mörgum þær sofa hjá?“ Bergþór og Sigmundur Davíð tóku undir þetta.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, fékk sinn skerf af ömurlegheitum. Bergþór sagðist eiga MeToo-sögu um hana en hafi sem „betur fer ekki“ látið sig hafa það að láta undan meintum tilraunum hennar til að fá hann til lags við sig. „Það voru ýmsir sem sögðu „take one for the team“ en Beggi var ekki til,“ sagði Sigmundur Davíð. Hinir hlógu og Gunnar Bragi sagði í kjölfarið sögu af sömu þingkonu, sem hann hefur síðan viðurkennt að sé ekki sönn. Hún var á þessa leið: „Það er einhver hátíð í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Ég mæti þarna sem frambjóðandi ásamt fleirum. Ég er allt í einu farinn að dansa við þessa stúlku […] Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“ Í kjölfarið héldu báðir mennirnir, Bergþór og Gunnar Bragi, því fram að Albertína hefði reynt að nauðga sér.

Svo gerðu þeir grín að lengd MeToo-ræðu hennar og því að fórnarlömb kynferðisofbeldis fari í opnuviðtöl í DV.

Mannfyrirlitningin

Þá tók Gunnar Bragi Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, líka fyrir fyrir. „Það versta er að við látum viðgangast að maðurinn í strápilsinu sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum á sviðinu sjálfu er formaður Samfylkingarinnar.“ Siðar bætti hann við: „Maðurinn er klæddur eins og Hvar er Valli. Þetta er hræðilegt.“ Logi var meðlimur í hljómsveitinni Skriðjöklunum á árum áður.

Það voru fleiri karlmenn sem fengu yfir sig svívirðingar. Gunnar Bragi lýsti því meðal annars yfir að pólitísk hrossakaup, sem betur verður vikið að síðar, hafi gengið svo vel að þau hafi sloppið í gegn „eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari.“ Þar átti hann augljóslega við Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvara, sem er samkynhneigður.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk sinn skerf. Anna Kolbrún sagði um hann: „Hann er svona let­ingi. Hann er ekk­ert rosa­lega með á nót­unum í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd.“ Undir þetta var tekið. Sigmundur Davíð tjáði sig svo um bak­grunn Páls úr fjöl­miðl­um og sagði að hans reynsla væri að stjórn­mála­menn með þannig bak­grunn ættu erfitt upp­drátt­ar. Nefndi hann í því sam­hengi Elín­u Hir­st, ­Sig­mund Erni Rúnarsson og taldi Pál Magn­ús­son vera í þeim hópi. Sagði Sig­mundur Davíð sjálfur að hann væri und­an­tekn­ing á regl­unni, en hann starfaði um tíma hjá RÚV.

Ólafur Ísleifsson heyrist segja á upptökunni að það sé mark­aður fyrir sjón­ar­mið Ásmundar Friðrikssonar um inn­flytj­endur í Suð­ur­kjör­dæmi, en Ásmundur hefur ítrekað orðið uppvís að því að fara með staðleysu opinberlega um stöðu innflytjenda og reynt að etja þeim saman við aldraðra og öryrkja með því að segja bættan hag annars hópsins hafa áhrif á hag hins. Ólafur sagði að Ásmundur hafi „treyst sér til að fjalla um mjög við­kvæm mál­efni, sem „góða fólk­inu“ er mjög á móti skapi.“

Auglýsing
Loks gerðu þingmennirnir grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmanni sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún kallaði hana „Freyju eyju“ og Sigmundur Davíð gerði grín að því að tveir mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á henni og áðurnefndri Albertínu. Við það tilefni hermdi einhver úr hópnum eftir sel.

Spillingarfyrirlitningin

Á upptökunni gorta fyrrverandi ráðamenn þjóðarinnar sig líka af því að hafa stundað pólitísk hrossakaup með sendiherrastóla þegar Gunnar Bragi var utanríkisráðherra. Hann hreykti sér af því að hafa skipað Árna Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna sem Gunnar Bragi kallar „senditík Steingríms [J. Sigfússonar]“, í stöðu sendiherra á sama tíma og Geir H. Haarde til að draga athyglina frá skipan Geirs. Ástæðan var meðal annars sú að Geir var auðvitað forsætisráðherra í hruninu og hafði verið fundinn sekur fyrir Landsdómi. Gunnar Bragi sagðist hafa fundað með Katrínu Jakobsdóttur, núverandi forsætisráðherra og formanni Vinstri grænna, í aðdraganda sendiherraskipunarinnar og þar tryggt „að hún myndi ekki segja neitt“.

Af samtalinu má ráða að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hafi beðið Gunnar Braga um að gera Geir að sendiherra.

Fyrir það viðvik taldi Gunnar Bragi að hann ætti inni greiða hjá Bjarna. Hann sagðist hafa sagt við Bjarna: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“

Sigmundur Davíð heyrist staðfesta söguna og segja að Bjarni hefði sagt að „niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.“ Sá greiði sem mennirnir vildu innheimta var að gera Gunnar Braga að sendiherra. Sigmundur Davíð sagði að Bjarni hefði fylgt málinu eftir við Guðlaug Þór Þórðarson, núverandi utanríkisráðherra, sem hefði sagt: „Jájá, ef það er eitthvað sem þig vantar.“ Síðan hafi Guðlaugur Þór bara ekki haft áhuga á að klára málið.

Í viðtali í morgun sagði Gunnar Bragi að þessi saga væri uppspuni sem hann gæti ekki útskýrt.

Þá ræða þingmenn Miðflokksins akstur Ásmundar Friðrikssonar. Anna Kolbrún segir á upptökunni að „Feill­inn sem Ási gerði var að hætta að keyra“ og vísar þar til þess að Ásmundur hafi minnkað verulega akstur sinn eftir að ásakanir um sjálftöku hans komu fram. Bergþór segist þá hafa heyrt þá hugmynd að Ásmundur hefði átt að setja bíla­leigu­bíl­inn á búkka í bíl­skúrn­um. „Þar væri hann á 100 kíló­metra hraða alltaf þegar hann væri sof­andi. Þannig að hverja nótt þegar Ási er sof­andi þá keyrir bíll­inn svona 700 kíló­metra. Þannig að hann mun sýna okkur það að hann keyrir jafn­vel meira.“

Raunveruleikafyrirlitningin

Fyrstu fréttir úr upptökunni birtust í gærkvöldi. Fyrstu viðbrögð sem bárust frá þeim sem þar töluðu komu frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann birti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sýndi enga iðrun og baðst ekki afsökunar á neinu. Þvert á móti beindi hann spjótum sínum að fjölmiðlum, líkti því að samtalið hafi verið tekið upp við það „þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks“ og vonaði að upptaka á drukknu níði hans og starfsfélaga hans yrði litinn jafn alvarlegum augum.

Þetta er svipað viðmót og Sigmundur Davíð hefur oft sýnt af sér áður. Að geta ekki litið í eigin barm undir nokkrum kringumstæðum, kenna alltaf öðrum, oft tilbúnum strámönnum eða George Soros, um allt sem aflaga fer hjá honum og ráðast ætið á sendiboðann í stað þess að fjalla um efnið. Það gerðist í Panamaskjölunum, þegar hann tapaði formannskosningum í Framsóknarflokknum og síðast þegar opinberað var að aflandsfélag Sigmundar Davíðs hafði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur í aðdraganda síðustu kosninga. Þá hótaði hann að fara í mál við þrjá nafngreinda fjölmiðla, meðal annars Kjarnann. Enn hefur ekki orðið af þeirri málsókn.

Gunnar Bragi og Ólafur Ísleifsson reyndu einnig að beina athyglinni að því að samtalið, sem fór fram á kyrrlátum og litlum bar á virku kvöldi í margra vitna viðurvist, hefði ekkert erindi í fjölmiðla þegar þeir voru til viðtals í Morgunútvarpinu í morgun. Það verður að taka það skýrt fram að upptaka af háværu samtali drukkinna þingmanna á kyrrlátum bar fyrir framan annað fólk á ekkert skylt við njósnir. Það á ekkert sameiginlegt við það að brjótast inn í síma einhvers, inn í tölvupósthólf einhvers eða inn á heimili einhvers.

Auglýsing
Það sem þessir menn vissu ekki þegar þeir reyndu þessu þunnu málsvörn var að einungis hluti af upptökunum höfðu verið gerðar opinberar. Og þegar leið á daginn í dag kom enn ógeðfelldara persónuníð þeirra í ljós. Á endanum sendu þingmenn Miðflokksins sem voru viðstaddir fylleríið frá sér sameiginlega afsökunarbeiðni til þeirra sem þeir níddu og fjölskyldna sinna, sem þeir gengu fram af.

Samfélagsfyrirlitningin

Sú orðræða sem viðhöfð var af þingmönnunum er ömurleg og óboðleg. Og ef þeir hefðu ekki verið gripnir í bólinu þá væru þeir ekki að biðja nokkurn mann afsökunar. Iðrunin er vegna þess að það komst upp um þá.

Eftir stendur spurningin um hvaða afleiðingar þetta eigi að hafa.

Nú er það þannig að flestir hafa látið óviðeigandi orð falla um einhvern í einhverju sem þeir telja einkasamtal. En fæstir hafa vonandi setið í opinberu rými klukkutímunum saman og skipst á að segja rætna, fyrirlitlega, meiðandi, ósanna og niðurlægjandi hluti um konur, samstarfsmenn, pólitíska andstæðinga, fatlaða og samkynhneigða. Eða mært það að nota staðleysu um innflytjendur til að ná pólitískum markmiðum. Eða viðurkennt pólitíska spillingu við veitingu embætta sem er eins og skólabókardæmi úr strokuspillingarfræðum helmingaskiptatímans.

Þingmenn eru nefnilega ekki eins og við flest. Þeir eru kjörnir fulltrúar alls almennings. Við eigum að gera mun ríkari kröfur til þeirra. Allar líkur eru á að framferði þeirra sé skýrt brot á siðareglum þingmanna, fyrir utan að vera á skjön við allt almennt velsæmi.

Á undanförnum árum höfum við hins vegar ekki getað gert neinar kröfur til þingmanna, vegna þess að þingmennirnir hafa ekki gert þær til sín. Þvert á móti er það varið út í rauðan dauðann að það þurfi aldrei að axla pólitíska ábyrgð þótt einhver brjóti lög, misfari með opinbert fé, svindli í kosningum, geymi fjármuni í aflandsfélögum án þess að tilkynna um það, svíki undan skatti eða hagi sér ósiðlega. Nú reynir á hvort atburðir síðustu tveggja daga muni orsaka einhver vatnaskil. Það er í höndum stjórnmálamanna á Alþingi að ákveða það. Eða hvort að hinn ömurlegi drykkjufundur sex þingmanna á þriðjudagskvöldið fyrir viku sé bara enn eitt dæmi um pólitíska menningu á Íslandi sem verði að kyngja.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari