Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, Kvennaathvarfið og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa gert með sér samkomulag um verkefni sem ætlað er að efla fræðslu um þjónustu og lagaleg úrræði í þágu kvenna af erlendum uppruna hér á landi sem hafa orðið orðið fyrir heimilisofbeldi. Þetta kemur fram í frétt velferðarráðuneytisins.
Ásmundur Einar Daðason, Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og Ellen Calmon formaður Mannréttindaskrifstofu Íslands undirrituð samkomulag þessa efnis í síðustu viku sem ber yfirskriftina Þekktu rétt þinn, þekking er vald.
Kjarninn birti þann 25. janúar síðastliðinn frásagnir kvenna af erlendum uppruna á Íslandi en sá hópur sem hefur þurft að upplifa heimilisofbeldi, grófar kynferðisofbeldi, hópnauðganir, nauðung og innan hópsins eru fórnarlömb mansals. Þær hafa þurft að lifa með andlegu ofbeldi, einelti, misrétti og niðurlægingu.
Konurnar stofnuðu hóp á Facebook þar sem konum að erlendum uppruna var gert kleift að að segja frá reynslu sinni um kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Á örfáum dögum fjölgaði konunum í hópnum úr nokkrum tugum í 660. Allar eru þær annað hvort af fyrstu eða annari kynslóð innflytjenda.
Frásagnirnar voru settar fram með þeim hætti sem konurnar skrifuðu þær, meðal annars til að vekja athygli á mættinum sem fylgir því að kunna tungumál þess samfélags sem viðkomandi býr í og það máttleysi sem fylgir því að kunna það ekki.
Konur af erlendum uppruna eru margar hverjar í mun erfiðari aðstöðu til að losna úr sínum aðstæðum en íslenskar kynsystur þeirra. Þær kunna margar hverjar ekki tungumálið, þekkja ekki réttindi sín og eru upp á kvalara sína komnar. Margar þeirra eru, eða hafa verið, fangar.
Námskeið haldin og fræðsla veitt
Í frétt velferðarráðuneytisins kemur fram að haldin verði námskeið og unnið að útgáfu fræðsluefnis um íslenskt réttarvörslukerfi, verkferla og úrræði. Meðal annars verði veitt fræðsla þar sem fjallað er um ferli skilnaðar- og forsjármála, reglur um dvalarleyfi og margvíslegar upplýsingar um mikilvæg réttindi og skyldur sem mikilvæg eru konum við þessar aðstæður.
Í samkomulaginu um verkefnið er kveðið á um samráð við innflytjendaráð, dómsmálaráðuneytið, lögreglu, Barnaverndarstofu, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu, félög og hagsmunasamtök innflytjenda og mögulega önnur félagasamtök.
Stofnaður verður starfshópur sem útbýr fræðsluáætlun og námskeið fyrir konur af erlendum uppruna sem búa við félagslega erfiðleika og hafa lítið stuðningsnet. Stuðst verður við bæklinginn Réttur þinn auk fræðsluefnis sem Kvennaathvarfið og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa yfir að ráða. Auk skipulagðra námskeiða verður leitast við að ná til einangraðra kvenna og þeirra sem ekki eru líklegar til að heyra af eða sækja slík námskeið.
Þannig er fyrirhugað að nálgast konurnar í gegnum Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossinn á Íslandi, Borgarbókasafnið, Hjálparstarf kirkjunnar, félagsstarf í Breiðholti og miðbæ og fleira.