Mynd: Bára Huld Beck

#Metoo: Konur af erlendum uppruna stíga fram

Konur af erlendum uppruna segja frá kynferðisofbeldi, fordómum, mismunun, markvissu niðurbroti, vanrækslu, útilokun og misnotkun í 34 frásögnum. Staða þeirra til að fá hjálp eða sækja réttlæti og öðlast betra líf er verri en margra annarra sökum þess að margar þeirra kunna ekki tungumálið, þekkja ekki réttindi sín eða eru upp á kvalara sína komnar. Þetta eru frásagnir þeirra.

Konur af erlendum uppruna á Íslandi er hópur sem hefur þurft að upplifa heimilisofbeldi, grófar kynferðisofbeldi, hópnauðganir, nauðung og innan hópsins eru fórnarlömb mansals. Þær hafa þurft að lifa með andlegu ofbeldi, einelti, misrétti og niðurlægingu. Þær stíga nú fram og segja sögur sínar undir merkjum #Metoo-byltingarinnar.

Fyrir nokkrum dögum var stofnaður hópur á Facebook þar sem konum að erlendum uppruna var gert kleift að að segja sögur sínar um kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Á örfáum dögum fjölgaði konunum í hópnum úr nokkrum tugum í 660. Allar eru þær annað hvort af fyrstu eða annari kynslóð innflytjenda. Hér að neðan má lesa sögur þeirra. Þær eru settar fram með þeim hætti sem konurnar skrifuðu þær, meðal annars til að vekja athygli á mættinum sem fylgir því að kunna tungumál þess samfélags sem viðkomandi býr í og það máttleysi sem fylgir því að kunna það ekki.

Hægt er að lesa frásagnir kvennanna hér.

Konur af erlendum uppruna eru margar hverjar í mun erfiðari aðstöðu til að losna úr sínum aðstæðum en íslenskar kynsystur þeirra. Þær kunna margar hverjar ekki tungumálið, þekkja ekki réttindi sín og eru upp á kvalara sína komnar. Margar þeirra eru, eða hafa verið, fangar.

Markvisst haldið í viðkvæmri stöðu

Í yfirlýsingu kvennanna, sem fylgir með frásögnum þeirra og undirskriftalista þeirra 97 sem treystu sér til þess að stíga fram undir nafni, segir að konur af erlendum uppruna hafi átt erfitt með að finna sér stað innan #Metoo-byltingarinnar.

Þær velta fyrir sér hvort það sé vegna þess að þær séu hafðar út undan eða hvort að þær kjósi sjálfar að standa hjá. Mikilvægt sé að leita svara við þessum spurningum og skilja af hverju það þurfi að svara þeim. „Frásagnir kvenna af erlendum uppruna eru ofnar úr fordómum, mismunun, markvissu niðurbroti, vanrækslu, útilokun og misnotkun. Margar okkar hafa upplifað það að hafa verið yfirgefnar og einangraðar af hálfu þeirra sem þær treystu. Með því að sameinast um frásagnir hafa augu okkar hins vegar opnast fyrir því að samfélagið hefur um langa hríð snúið blinda auganu að ýmsu misjöfnu sem átt hefur sér stað gagnvart konum af erlendum uppruna. Framkomu sem hefur leitt til þess að margar okkar upplifa sig ekki öruggar og að mörgum okkar finnst við ekki eiga sama rétt til verndar, aðstöðu og réttinda í íslensku samfélagi.“

Konurnar segja að það sé mikilvægt að setja á dagskrá ástæður fordóma, mismununar og niðurbrots sem konur af erlendum uppruna upplifa á Íslandi. „Sumum okkar, sem hafa orðið fórnarlömb heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis og jafnvel mansals, er markvisst haldið í viðkvæmri stöðu sem jafnvel er notuð gegn þeim. Gáfaðar, menntaðar, sterkar og fallegar konur flytja hingað til lands ala með sér sömu drauma og vonir og íslenskar konur um bjarta framtíð og velgengni. Þegar þessar konur sjá drauma og vonir verða að engu vegna kerfisbundinna fordóma, vanrækslu og mismununar, er þeim þröngvað í hlutverk fórnarlambs sem oftar en ekki er upp á kvalara sinn komið.“

Hægt er að lesa yfirlýsingu kvennanna og undirskriftir þeirra hér.

Fjölmargar frásagnir af nauðgunum

Frásagnir þeirra eru átakanlegar. Ein fjallar um það að eiginmaður hafi litið á eiginkonu sína sem hlut sem hann gat notað þegar hann vildi. Nánast alltaf var um að ræða kynferðislegt athæfi og maðurinn kom fram vilja sínum þrátt fyrir kona hans segði skýrt nei.

Önnur frásögn er af því þegar kona sem ráðin var til að þrífa heima hjá auðugum íslenskum hjónum verður fyrir kynferðisofbeldi af hendi vinnuveitanda síns sem hélt henni nauðugri, sleikti í framan og niður að brjóstum hennar. Í kjölfarið sagði maðurinn að honum hafi alltaf langað til að vita hvernig lituð kona bragðaðist. Tveimur dögum síðar var konan rekin úr starfi af eiginkonu mannsins.

Ein konan segir frá því að hún hafi þurft að „borga“ fyrir að komast til Íslands með því að stunda kynlíf með manninum sem flutti hana hingað. Hún var einnig neydd til þess að stunda kynlíf með tveimur vinum hans. Þetta ástand hafi staðið yfir í þrjú ár, eða þar til að kvalari hennar fann sér yngri innflytjanda í hennar stað. Hún segist hata karlmenn í dag og að hún muni aldrei geta notið kynlífs eftir reynslu sína. „Ég vil aldrei fæða barn inn í heim þar sem svona hlutir geta átt sér stað,“ segir konan í frásögn sinni.

Frásagnir kvenna af erlendum uppruna eru settar fram sem hluti af #Metoo-byltingunni.
Mynd: Pexels.com

Önnur kona segir frá því að fyrstu fimm árin sem hún hafi búið á Íslandi hafi hún upplifað einangrun og niðurlægingu að versta tagi. Hún hafi ekki talað íslensku og búið með manni úti á landi. „Hann var alltaf að minna mig á hversu mikið það kostaði honum að fá mig hingað og gifta mig og bara að ég væri hreinlega aukin kostnaði fyrir honum. Sjáið þið til hann leyfði mér ekki einu sinni vinna eða sækja íslenskakennslu svo að ég gæti fara að vinna. Það var ömurleg. Einu sinni hann let mig já það er rétt hótaði mig og píndi mér að sofa hjá bróðir hans því að þeir voru að djúsa saman heima hjá okkur og bróðir hans vildi bara prófa mig. Mágkonan mín vissi af þessu og sagði ekkert við mig ekki einu sinni fyrirgefðu. Sjúkt.“

Í frásögn einnar konu greinir hún frá því hvernig að nágrannar hennar hafi ekki gert neitt þrátt fyrir að öskur og hárreysti hafi ítrekað heyrst úr íbúð hennar þegar eiginmaður hennar var að berja hana.

[Ein konan starfaði við ræstingar þegar maður af vinnustaðnum nauðgaði henni. „ann sagði ég má ekki segja frá ég má ekki hugsa hann vildi meiða mig hann var bara vildi prófa útlensk kona eins og mig ég var falleg og góð. Ég for aldrei aftur að vinna. Ég spurði vinkona mín að þrífa fyrir mig næstu dag. Þegar hún for í geymslu hvar ég geyma skúringu dót það var umslag með nafnið mitt á. Hún kom með það til mín. Inní umslag var 100.000 kr peninga."

Vilja finna leiðir til að brúa bilið

Konurnar óska eftir því í yfirlýsingu sinni að frásagnir þeirra séu lesnar af virðingu, skilningi og varfærni. „Þessar hugrökku konur hafa valið að deila þessum sársaukafullu frásögnum undir nafnleysi. Við biðjum um að lesendur nýti þær tilfinningar sem kunna að vakna við lesturinn til að finna leiðir til að bæta stöðu okkar og brúa það bil sem myndast hefur á milli okkar og annarra í samfélaginu.“

Með fylgir eftirfarandi áskorun til íslensks samfélags:

  • Við skorum á samfélagið að viðurkenna að konur af erlendum uppruna hafa mismunandi þarfir sem þarf að mæta á vinnustöðum þeirra, í samfélaginu og af hálfu þeirra sem veita samfélagslega þjónustu.
  • Við skorum á samfélagið að viðurkenna að konur af erlendum uppruna eru viðkvæmur hópur sem er útsettur fyrir kerfisbundinni mismunun, ofbeldi og niðurbroti.
  • Við skorum á samfélagið að innan allra áætlana og ferla sem snúast um að útrýma kynbundinni mismunun, áreiti og ofbeldi sé gert ráð fyrir valdeflingu kvenna af erlendum uppruna.
  • Við skorum á stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög að tryggja eftirlit og vernd kvenna af erlendum uppruna.
  • Við skorum á stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög að tryggja öruggar boðleiðir og farvegi til að réttindi kvenna af erlendum uppruna séu virt.
  • Við undirritum þessa beiðni í þeirri von að þátttaka okkar í #MEtoo byltingunni styrki bönd milli allra þegna samfélagsins og styrki baráttuna gegn kynbundinni mismunun, áreiti og ofbeldi í samfélaginu. Með því leggjum við okkar lóð á vogarskálar þess að búa til betra og öruggara samfélag fyrir okkur öll.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar