Almannatengslafyrirtækið Burson-Marsteller, sem er með höfuðstöðvar í New York og starfar í alls 110 löndum, er sá einstaki aðila sem hefur fengið hæstu greiðsluna frá utanríkisráðuneyti Íslands vegna ráðgjafar og starfa við tímabundin eða afmörkuð verkefni á starfstíma sitjandi ríkisstjórnar. Alls hefur fyrirtækið fengið 20,3 milljónir króna greiddar frá því að ríkisstjórnin tók við fyrir rúmu ári síðan.
Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við skriflegri fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um málið. Greiðslan til Burson-Marsteller er tæplega tvisvar sinnum hærri en næst hæsta greiðslan sem utanríkisráðuneytið hefur greitt fyrir ráðgjöf eða tímabundin/afmörkuð verkefni. Næst hæstu greiðsluna fékk ÍSOR vegna ráðgjafar vegna rannsókna og tæknileg aðstoð varðandi jarðhitaverkefni í Austur-Afríku. Sú vinna var vegna verkefna Alþjóðabankans.
Unnið að mörgum málum á undanförnum árum
Burson-Marsteller hefur lengi unnið fyrir íslensk stjórnvöld. Ástæða greiðslu utanríkisráðuneytisins til fyrirtækisins á síðastliðnu ári er vegna samnings „um ráðgjöf og þjónustu við ríkisstjórnina um orðspor Íslands erlendis, svo sem greiningarvinna, almannatengsl og fjölmiðlavöktun.“
Á meðal annarra verkefna sem Burson-Marsteller hefur unnið að fyrir ríkisstjórn Íslands á undanförnum árum er ráðgjöf og aðstoð vegna málareksturs ríkisins gegn Iceland-matvöruverslununum, málum tengdum ferðamennsku, Brexit, varðandi losun fjármagnshafta, í tengslum við Panamaskjölin og umræðu um stefnu íslenskra heilbrigðisyfirvalda varðandi Downs-heilkenni.
Skrifuðu bréf til Washington Post
Í aðdraganda kosninganna haustið 2017 komst vinna fyrirtækisins aftur í sviðsljósið þegar Stundin greindi frá því að Burson-Marsteller hefði sent bréf til stórblaðsins Washington Post. BRéfin var vegna pistils sem Janet Elise Johnson, prófessor í stjórnmálafræði og kvennafræðum við Brooklyn College í Bandaríkjunum, hafði skrifað í blaðið. Pistillinn fjallaði um stjórnarslitin sem þá höfðu nýverið átt sér stað á Íslandi og „barnaníðingshneykslið“.
Bréf Burson-Marsteller, sem var sent 27. september 2017 eða einum mánuði og einum degi fyrir þingkosningar og tólf dögum eftir að uppreist æru-málið hafði sprengt ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, hófst á eftirfarandi orðum:
„Ég skrifa ykkur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Við förum fram á að greinin ‘Ríkisstjórn Íslands féll vegna þess að faðir forsætisráðherra vildi að barnaníðingur yrði náðaður. Hvað er í gangi?’ verði fjarlægð vegna fjölda staðreyndavillna og afbakana.“
Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins sagði í kjölfarið að Burson-Marsteller hefði verið falið að leiðrétta rangfærslur í erlendum fjölmiðlum. Rangfærslurnar sem leiðrétta þurfti hafi verið þær að í umfjöllun Washington Post hafi upphaflega verið talað um að faðir þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, hefði mælt með að dæmdur barnaníðingur yrði náðaður, en ekki að honum yrði veitt uppreist æru eins og rétt er. Skömmu eftir að greinin í Washington Post birtist var þetta lagfært á vef miðilsins.
Sérfræðiaðstoð keypt ef hún er nauðsynleg
Vísir greindi frá því skömmu síðar að minnst ellefu stórir alþjóðlegir fjölmiðlar hefðu fengið meldingar frá Burson-Marsteller fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar vegna frétta af stjórnarslitunum á Íslandi. Um var að ræða fréttastofur, sjónvarpsstöðvar og dagblöð.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafnaði þessum málflutningi eindregið í viðtali á Bylgjunni 6. október í fyrra. Þar sagði hann m.a. að vinna Burson-Marsteller og annarra ráðgjafa hafi snúið að öllu því sem skaði ímynd Íslands og þar sem verið væri að fara rangt með. „Eins og að hér sé verið að náða barnaníðinga og pabbi forsætisráðherra hafi gert það?! Með fullri virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni og Sigríði Á. Andersen, það þekkir þau enginn í útlöndum. Ef einhver er með ranghugmyndir um hvernig við meðhöndlum mál barnaníðinga, þá skaðar það Ísland. þetta hefur alltaf verið gert. Ef þú þarft sérfræðiaðstoð, þá er hún keypt, hvort sem það eru lögfræðingar eða almannatenglar.“