Lögmaður fjögurra einstaklinga, sem að öllum líkindum eru fjórir þingmenn Miðflokksins, hefur lagt fram beiðni um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna fyrir dómi vegna upptöku á samtölum sem áttu sér stað á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn. Beiðnin byggir á ákvæði laga um meðferð einkamála sem fjallar um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að möguleg sönnunargögn spillist.
Hefst þá dansinn...
Posted by Bára Halldórsdóttir on Tuesday, December 11, 2018
Þetta kemur fram í bréfi sem Báru Halldórsdóttur, konunnar sem tók upp samræður þingmannanna á Klausturbarnum 20. nóvember, hefur borist frá héraðsdómara og Bára hefur birt á Facebook. Í stöðufærslu með bréfinu segir Bára: „Hefst þá dansinn“.
Í bréfinu segir enn fremur að beiðnin verði „ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál kunni að verða höfðað á hendur þér í kjölfar umbeðinnar gagnaöflunar.“
Fengu sér lögmann og höfðu samband við Persónuvernd
Greint var frá því á RÚV í gær að þeir fjórir þingmenn Miðflokksins sem voru teknir upp við að láta niðrandi og niðurlægjandi ummæli falla um fjölda fólks á Klausturbar 20. nóvember hefðu ráðið sér lögmann. Sá hefði haft samband við Persónuvernd og krafist þess að stofnuni rannsakaði hver hefði staðið að því að taka upp samtöl þingmannanna og komið upptökunni til fjölmiðla.
Þingmennirnir fjórir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritari flokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður.
Um sólarhring eftir að beiðni lögmannsins barst Persónuvernd gaf Bára Halldórsdóttir sig fram í viðtali við Stundina og opinberaði að hún væri sá einstaklingur sem hefði tekið upp samtölin.