Stjórn og stjórnendur Kjarnans standa, og hafa staðið, 100 prósent á bak við starfsmann fyrirtækisins sem var í sumar þolandi áreitni þingmanns.
Hegðun hans var niðrandi, óboðleg og hafði víðtækar afleiðingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleiðingar sem eru bæði persónulegar og faglegar.
Stjórn og stjórnendur Kjarnans gerðu þolanda ljóst frá upphafi að hann réði ferðinni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi réttast að grípa. Eftir að fyrir lá viðurkenning geranda á því sem átti sér stað, en enginn sýnilegur vilji til að bregðast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þolandi að koma vitneskju um áreitnina á framfæri við stjórnmálaflokkinn sem gerandinn situr á þingi fyrir. Þar var málinu beint í farveg nýstofnaðrar trúnaðarnefndar.
Þegar sú niðurstaða lá fyrir var það ákvörðun stjórnmálaflokksins að ákveða hvað hann vildi gera með hana. Sú niðurstaða liggur nú fyrir.
Þolandinn í þessu máli, líkt og öllum öðrum áreitni- og ofbeldismálum, á að hafa fullan rétt yfir því hvort, hvenær og hvernig hann tjáir sig um þau atvik sem hann verður fyrir. Fjölmiðlar sem og aðrir eru beðnir um að virða þau mörk.
Með vinsemd og virðingu,
Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans miðla.