Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun funda um sendiherramálið svokallaða í janúar. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, í samtali við Kjarnann.
Í frétt RÚV um málið mun nefndin ekki funda í dag vegna þess að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa ekki svarað ítrekuðum boðum um að mæta til fundarins.
Á fundinn var einnig búið að boða Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór er erlendis í dag, samkvæmt RÚV, og hefði því ekki komist á fund nefndarinnar.
Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð, sem báðir eru þingmenn Miðflokksins, sátu á Klausturbarnum í lok nóvember þar sem gerð var upptaka af samtali þeirra og fjögurra annarra þingmanna. Gunnar Bragi heyrist á upptökunni ræða hrossakaup um skipan Árna Þórs Sigurðssonar, fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sendiherra.
Á meðal þess sem Gunnar Bragi segir er: „Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sendiherra í Washington […] þá ræddi ég við Sigurð Inga. Honum var ekki skemmt enda hafði hann ákært Geir. Ég ræddi þetta auðvitað við alla flokka. Ég sá það að ég gæti ekki skipað Geir einn. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og alla. Það sem ég gerði var að skipa Árna Þór (Sigurðsson) sem sendiherra. Hann er náttúrulega bara […], þó hann sé frændi minn. VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð. Ég átti fund með henni. Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari.“
Síðar bætti Gunnar Bragi við: „Athyglin fór öll á Árna Þór. Annars hefði Vinstri Græna liðið orðið brjálað[...]Árni var náttúrulega ekkert annað en senditík Steingríms. Plottið mitt var að Geir yrði í skjólinu hjá Árna og það virkaði ekki bara 100 prósent heldur 170 prósent því að Árni fékk allan skítinn. Svo sagði Geir við mig löngu seinna: „Þakka þér fyrir. Það var enginn sem gagnrýndi mig.“ Ég lét Árna taka allan slaginn.[...]Ég átti fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“ Það var ekki vegna þess að ég hafi verið að hugsa um að skipta um flokk. Ég var ekki kominn út þegar Þórólfur (Gíslason) hringir og spyr: „Ætlar þú að verða sendiherra?“ Ég var ekki kominn út úr ráðuneytinu.“
Í frétt RÚV segir að á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð staðfesta þessa frásögn Gunnars Braga. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar hafi þeir þvertekið fyrir að sagan um loforðið hafi verið sönn. Bjarni Benediktsson hafi jafnframt neitað því að hafa veitt slíkt loforð og Guðlaugur Þór segist ekki vita til þess að til stæði að gera Gunnar Braga að sendiherra.