Hagfræðideild Landsbankans segir að langur vegur sé á milli kaupgetu þeirra sem eigi við erfiðleika að etja í húsnæðismálum og kaupverðs nýrra íbúða í nýrri hagsjá bankans. Um 60 prósent leigjenda telja að þeir hafi minna en fimm milljónir króna eigið fé til kaupa á húsnæði. Í dag gefa 5 milljónir króna í eigið fé möguleika á 25 milljón króna íbúð miðað við 80 prósent lánshlutfall. Hins vegar er mjög lítið til af íbúðum í þeim verðflokki en aðeins 15 prósent af íbúðum í Reykjavík eru 70 fermetrar eða minni.
Rúmlega helmingur reiknar með að kaupverð fyrstu íbúðar verði á bilinu 35 til 65 milljónir
Í greiningu sem Capacent gerði fyrir Reykjavíkurborg nú í vetur kemur enn fremur fram að um 65 prósent eigenda og leigjenda reikna með að kaupverð fyrstu íbúðar verði á bilinu 35 til 65 milljónir. Þar af reikna 33 prósent leigjenda með að kaupa íbúð sem kostar undir 35 milljónir og 72 prósent reiknar með að íbúð kosti minna en 45 milljónir.
Ef litið er á þróun fasteignaverðs og heildartekna frá aldamótum sést að fasteignaverð hefur fjórfaldast á meðan tekjur fólks á vinnualdri hafa tæplega þrefaldast. Tekjur fólks á aldrinum 20 til 29 ára hafa hækkað minna en meðaltekjur allra og hafa u.þ.b. 2,5-faldast á þessum tíma. .
Leigjendur eru að jafnaði með lægri tekjur en þeir sem eiga húsnæði, og greiðslur þeirra vegna húsnæðis eru yfirleitt hærra en hjá eigendum. Því eiga leigjendur erfiðar með að spara fyrir innborgun í íbúð þó þeir fegnir vildu kaupa. Í greiningu. Capacent kemur fram að nú þurfi u.þ.b. tvöfalt hærri ráðstöfunartekjur en þurfti árið 1997 og um 60 prósent hærri en árið 2007. Í sömu greiningu kemur fram að það tekur fólk á aldrinum 30 til 34 ára um 192 mánuði að greiða fyri íbúð í dag , að því gefnu að allar ráðstöfunartekjur væru notaðar til kaupanna.
Stórt bil sem þarf að brúa
Í hagsjá Landsbankans segir að greinilegt sé að umtalsvert bil er á milli getu leigjenda til þess að kaupa húsnæði og væntinga þeirra um væntanlegt kaupverð, allavega miðað við stöðu eiginfjár í dag. Húsnæðismál virðast vera eitt mikilvægasta málið í viðræðum um kjarasamninga og í hagspánni segir að ljóst er að kröfur verkalýðsfélaganna snúast um að þetta bil verði brúað með einhverjum hætti af stjórnvöldum. Nýlega voru hins vegar samþykkt fjárlög en í þeim er engin framlög eyrnamerkt til þessa verkefnis að brúa bilið fyrir leigjendur til þess að eignast íbúð.
Miðað við umræðuna undanfarið virðast bæði stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins sammála um að mikil umframeftirspurn sé eftir húsnæði og að því sé mikilvægt að gera stórátak í byggingu íbúðarhúsnæðis á næstu misserum. Íbúðalánasjóður benti til dæmis á í skýrslu sinni í apríl að áætluð uppbygging næstu tvö ár myndi ekki mæta uppsafnaðri þörf, en uppsafnaður skortur og fjölgun íbúða í skammtímaleigu var talinn nema 9.000 íbúðum. Taldi Íbúðalánasjóður að breytt aldursdreifing kallaði á 6.000 íbúðir til viðbótar.
Offramboð á íbúðum sem fáir vilja og enn færri geta keypt
Landsbankinn birti aðra hagspá um fasteignamarkaðinn í gær þar sem fram kom að von er á verulegu framboði nýs húsnæðis á næstunni. Þar var bent á að bæði stærð og verð á því húsnæði er með þeim hætti að þeir sem eru á leigumarkaði eiga lítinn möguleika á að eignast það, að öllu óbreyttu. Líkt og kom fram hér að ofan eru einungis 15 prósent af íbúðum í Reykjavík 70 fermetrar eða minni.
Nýbyggingar sem hafa komið á markað á þessu ári og gert er ráð fyrir að komi á markað á næsta ári passa hins vegar fyrstu kaupendum illa. Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs var meðalstærð nýrra seldra íbúða 103 fermetrar og meðalfermetraverð um 521 þúsund krónur. Verð meðalíbúðar var því um 54 milljónir. Í áðurnefndri greiningu Capacent kom fram að 72 prósent leigjenda reiknar með að kaupa íbúð sem kostar minna en 45 milljónir. Í greiningunni kom einnig fram að 60 prósent leigjenda eiga minna en fimm milljónir í eigið fé. En með fimm milljónir í eigið fé er mögulegt að kaupa 25 milljóna króna íbúð ef reiknað er með 80 prósent lánshlutfalli.
Í hagsjá Landsbankans er því bent á að veruleg byggingaráform í nýja átt gætu orðið til þess að treglega gangi að selja allt það húsnæði sem er nú þegar á markaði og á leið þangað.„Það er ekki ólíklegt að mikið framboð sé og verði á íbúðum sem fáir vilja og enn færri geta keypt,“ segir í hagsjánni sem útilokar ekki offramboð vegna þessa.