Samkvæmt niðurstöðu fjölmiðlanefndar, sem Kjarninn hefur undir höndum, mun nefndin ekki taka kvörtun Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra sölusviðs Símans, vegna meintra dulinna auglýsinga í fréttatíma RÚV 1. október síðastliðinn til frekari meðferðar.
Í kvörtuninni sagði að formlega væri óskað rannsóknar á óeðlilegum tengslum auglýsingasölu og fréttaflutnings hjá Ríkisútvarpinu sjónvarpi. Til stuðnings kröfunni var vísað til birtingar fréttar um Hafnartorg í aðalfréttatíma sjónvarps þann 1. október síðastliðinn. Þá var í kvörtuninni vísað til tiltekinna atvika og rakið hvers vegna kvartandi teldi fréttina brjóta gegn banni við duldum auglýsingum.
Á fundi fjölmiðlanefndar, sem haldinn var 10. desember síðastliðinn, fjallaði nefndin um framangreinda kvörtun og svör Ríkisútvarpsins vegna hennar. Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að að teknu tilliti til umræddrar fréttar, svara Ríkisútvarpins og fyrirliggjandi gagna telji nefndin ekkert fram komið sem bendi til óeðlilegra tengsla auglýsingasölu og fréttaflutnings Ríkisútvarpsins. Því sé það niðurstaða nefndarinnar að kvörtunin gefi ekki tilefni til frekari meðferðar hjá nefndinni.
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, sagði þann 10. október síðastliðinn að um hreinan atvinnuróg væri að ræða. Í kvörtun Magnúsar væri að finna rakalausar dylgjur og hugarburð. „Sjálfstæði fréttastofu RÚV gagnvart öðrum deildum fyrirtækisins er algert og engin dæmi þess að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn,“ sagði hún.