Ferðaskrifstofur Travelco, áður Primvera Travel, töpuðu fimm milljörðum króna á falli flugfélagsins Primera Air, að sögn Andra Más Ingólfssonar, forstjóri og stærsti eiganda Primera air og Travelco. Þetta kemur fram í viðtali við Andra Már í Viðskiptablaðið í dag.
Arion banki vildi nýtt félag
Mánudaginn 1. október var greint frá því að flugfélagið Primera Air væri á leið í þrot. Í tilkynningunni um gjaldþrot Primera air kom fram að ferðaskrifstofur Primera Travel Group töpuðu háum fjárhæðum vegna fluga sem greidd höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flogin. Andri segir í viðtalinu við Viðskiptablaðið að óskað var eftir gjaldþrotaskiptum þegar ljóst var að Arion banki myndi ekki styrkja frekar við rekstur flugfélagsins. Þá hafi bankinn þrýst á um að ferðaskrifstofur Primera Travel Group yrðu færðar í nýtt félag. Því var stofnað nýtt eignarhaldsfélag, Travelco, með milljarð í nýju hlutafé til að tryggja rekstur ferðaskrifstofanna.
Í kjölfarið voru ferðaskrifstofur Primera samstæðurnar færðar yfir í Travelco sem tók þá yfir skuldir félagsins við Arion Banka. Rekstur allra fyrirtækjanna var fluttur undir Travelco og ferðaskrifstofurnar héldu áfram óbreyttum rekstri.
Milljarða kröfur í þrotabúi Primera
Þegar Primera Air hætti í október síðastliðinn eftir fjórtán ár í rekstri og var flugfélagið, ásamt dótturfélögum sínum í Danmörku og Lettlandi, í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta. Stjórnendur flugfélagsins sögðu að horfur á flugmarkaði hefðu farið hratt versnandi, með hækkandi olíuverði og lækkandi flugfargjöldum, og ekki hefði tekist að tryggja félaginu fjármögnun til langs tíma. Arion banki þurfti að færa niður lán og greiða út ábyrgðir fyrir á bilinu alls 1,3 til 1,8 milljarða króna vegna gjaldþrotsins en óvíst er hve miklar eignir munu finnast í þrotabúum félaganna.
Í október var greint frá því að kröfur í þrotabúi Primera air væru komnar upp í 16,4 milljarða króna en eignir Primera eru metnar á um hálfan milljarð. Í kringum 500 dönsk fyrirtæki og einstaklingar höfðu þá lýst yfir kröfum í þrotabú flugfélagsins. Frá þessu var greint á danska miðlinum Jyske Vestkysten en ekki var ljóst hverjar endanlegu tölurnar um kröfurnar og eignirnar eru.
Segir að félagið væri enn í rekstri ef Arion banki hefði veitt brúarfjármögnun
Andri Már segir einnig í viðtalinu að Primera Air væri enn í rekstri hefði Arion banki verið reiðubúinn til að veita félaginu brúarfjármögnun líkt og staðið hafði til, þar til skuldabréfaútboði félagsins væri lokið. „Það er ljóst að ef sú fjármögnun hefði komið, væri Primera Air enn í rekstri,“ segir Andri Már.
Eigið fé Primera air hafði hinsvegar verið neikvætt svo árum skiptir áður félagið fór í þrot.Sem dæmi var það neikvætt um 22,1 milljón evra í lok árs 2015, en það ár tapaði félagið 12,6 milljónum evra, og neikvætt um 17,1 milljón evra í árslok 2016. Gjaldþrot félagsins kom því ekki líkt og þruma úr heiðskíru lofti en erfið staða flugfélagsins hafði verið mörgum ljós um nokkurt skeið.