Ný skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar, sem kom út síðastliðið vor, bætir ekki miklu við umfjöllun um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á heilsufar á Íslandi. Ástæða þess er sú að þetta umfjöllunarefni hefur ekki haft mikið vægi í heilbrigðisrannsóknum á Íslandi. Hlutverk vísindanefndar er að taka saman fyrirliggjandi upplýsingar og ástand þekkingar, nefndin stundar ekki sjálfstæðar rannsóknir. Verulega þarf að bæta við rannsóknir um þetta efni á næstu árum svo betur megi tryggja að nauðsynleg þekking verði til staðar.
Þetta segir Halldór Björnsson‚ veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í grein um loftslagsbreytingar og heilsufar sem birtist í Læknablaðinu og kom út í byrjun mánaðarins.
Hann bendir á að í skýrlsunni sé þó rætt ítarlegar um hlýnun og frjókornatímabil, og hugsanlega tengingu hlýnunar og aukinnar tíðni myglu innandyra vegna meiri loftraka, en samkvæmt erlendum rannsóknum getur tíðni myglu innandyra á köldum svæðum aukist um 5 til 10 prósent við hlýnun. „Í niðurlagi umfjöllunar um loftslagsbreytingar og heilsufar á Íslandi er endurtekin samantekt fyrri skýrslna um að miðað við þrótt heilbrigðiskerfisins bendi ekkert til annars en að það muni ráða við það álag sem breytingunum kann að fylgja,“ segir Halldór.
Hann byrjar greinina á því að útskýra að frá síðasta fjórðungi liðinnar aldar hafi hlýnað viðstöðulítið víðast hvar á yfirborði jarðar. Afleiðingar hlýnunarinnar séu þegar farnar að koma fram í bráðnun jökla, hækkandi sjávarstöðu, aukinni tíðni óveðra, bæði hitabylgna og aftakaúrkomu. Bein áhrif á lífríki séu nú þegar nokkur, og gæti breytinga á útbreiðslu dýra- og plöntutegunda, tíma laufgunar trjáa auk þess sem árstíðabundin hegðan dýrategunda (koma farfugla, ganga fiskistofna) hafi breyst með áhrifum á stofnstærð og víxlverkun við aðrar tegundir.
Þjóðfélög mismunandi berskjölduð
Halldór bendir jafnframt á að mismunandi sé hversu berskjölduð þjóðfélög eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og ráðist það af styrk innviða, atvinnuháttum, stjórnarháttum og öðrum þjóðfélagslegum þáttum, – en ekki bara af umfangi loftslagsbreytinga.
Hann segir að ofangreind upptalning ætti ekki að koma á óvart, því búið hafi verið að spá þessari þróun fyrir nokkru síðan. Spár um hlýnun jarðar séu nokkurra áratuga gamlar, og upptalning á líklegum afleiðingum fyrir vistkerfi og félagskerfi margar frá því fyrir síðustu aldamót.
Í fyrrnefndri skýrslu vísindanefndar er farið yfir þekkingu vísinda á loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra á Íslandi. Halldór segir að meðal annars komi fram að afleiðingar hlýnunar síðustu áratuga hér á landi séu auðsæjar og víðfeðmar, birtist í þynningu jökla, grænkun lands og breytingum á komutíma farfugla og tegundasamsetningu. Skýrslan ræði einnig væntanlegar loftslagsbreytingar á komandi öld, en á Íslandi verði hlýnun að jafnaði nærri hnattrænni hlýnun, þó óvissa um þróun á hafsvæðunum umhverfis landið sé veruleg.
„Hversu mikið hlýnar hnattrænt fer eftir losun gróðurhúsalofttegunda, verði hún í takt við ákvæði samkomulagsins sem náðist í París 2015 verður hnattræn hlýnun innan við 2°C,“ segir hann.
Loftslagsbreytingar hafa líklega áhrif á heilsu milljóna manna
Halldor bendir enn fremur á að í skýrslu vísindanefndar frá árinu 2008 sé stuttlega fjallað um hvaða áhrif líklegt sé að loftslagsbreytingar hafi á heilsufar á hnattræna vísu og sé þar byggt á úttekt milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) frá 2007. Þar komi fram að líklega muni loftslagsbreytingar hafa áhrif á heilsu milljóna manna, einkum hópa sem hafa litla getu til aðlögunar. Meðal helstu áhyggjuefna hafi verið vannæring og sjúkdómar henni tengdir, niðurgangssóttir og öndunarfærasjúkdómar, slys og sjúkdómar tengdir náttúruhamförum, hitabylgjum, fárviðri og flóðum og að lokum hafi verið bent á að smitleiðir kynnu að breytast og smitberar að nema ný lönd.
„Skýrslan ræddi einnig stöðu þekkingar á heilsufarsáhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi, og bent á að helstu áhættuþættir væru taldir smitsjúkdómar og aukin tíðni ofnæmissjúkdóma, en síðari þátturinn tengdist breytingum á gróðurfari. Sjúkdómar á borð við veiruheilahimnubólgu og Borreliosis sem tengjast smámaurnum Ixodes ricinus hafa breiðst út í Norður Evrópu, og nái maurinn landfestu kynni slíkt að gerast hér. Hlýnun ein og sér nægir þó ekki til því hin fábreytta fána villtra spendýra á Íslandi og lítill þéttleiki þeirra vinnur gegn viðkomu maursins sem er háður slíkum millihýslum,“ segir Halldór.
Hægt er að lesa greinina í heild á vefsíðu Læknablaðsins.