Langflest fyrirtæki landsins eru með færri en tíu starfsmenn í vinnu eða um 94 prósent þeirra. Yfir 30 þúsund virk fyrirtæki starfa hér á landi með rúmlega 134 þúsund starfsmenn. Rekstrartekjur þessara fyrirtækja hafa numið rúmlega 4.000 milljörðum króna árið 2018. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofunnar.
Rúmlega 28 þúsund fyrirtæki hér á landi eru með innan við tíu starfsmenn, sem gerir alls um 94 prósent. Rekstrartekjur þessara fyrirtækja námu um 908 milljörðum rkóna og skiluðu þau 188 milljörðum í vergan rekstrarafgang, EBITDA. Til samanburðar voru einungis 179 fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri, en hjá þeim störfuðu 51 þúsund starfsmenn og rekstrartekjur námu 1.800 milljörðum króna og vergur rekstrarafgangur var 210 milljarðar.
Innflytjendur tæp 40 prósent annarra stærstu atvinnugreinar Íslands
Flestir starfsmenn íslenskra fyrirtækja starfa innan viðskiptahagkerfsins, að undanskilinni fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða alls 134.117 starfsmenn. Næst stærsta atvinnugreinin eru einkennandi greinar ferðaþjónustu með 27.945 starfsmenn. Innflytjendur eru tæp 40 prósent þeirra starfsmanna en 10.888 þúsund innflytjendur starfa við ferðaþjónustu hér á landi. Af þeim starfa 7694 innflytjendur við rekstur veitingastaða og gistihúsa.
Landsframleiðsla á mann á Íslandi 30 prósent yfir meðaltali
Landsframleiðsla á mann á Íslandi var þrjátíu prósent yfir meðaltali Evrópusambandsríkja árið 2017. Ísland var í fimmta sæti líkt og árið á undan en fyrir þremur árum var Ísland í áttunda sæti og 26 prósent yfir meðaltali.
Lúxemborg mestu landsframleiðslu á mann árið 2017 þar sem landsframleiðsla á mann var 153 prósent yfir meðaltali og Írland í öðru sæti 81 prósent yfir meðaltali. Lúxemborg sker sig úr þar sem fjöldi fólks starfar í landinu og leggur því til landsframleiðslunnar án þess þó að búa þar. Noregur er í sætinu fyrir ofan Ísland, Danmörk í sjöunda sæti og Svíþjóð í því tíunda.