WOW air vinnur nú að því að ná samkomulagi við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners um að fjárfesta í sér, og gæti sú fjárfesting verið upp á allt að 75 milljónir dala, eða 9,4 milljarða króna.
Frá þessu er greint á vef WOW air, en vinnunni er ekki lokið enn.
Í gær var tilkynnt um mikinn samdrátt í rekstri WOW air. Vélum félagsins, sem voru 24 fyrir nokkrum vikum síðan, verða ellefu innan skamms. Leiðarkerfi WOW air mun taka breytingum og áfangastöðum fækkað. Þá munu allt að 350 manns missa vinnuna. Þar ef eru 111 fastráðnir starfsmenn auk hlutastarfsmanna og verktaka.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu WOW air í fréttaskýringu sem birtist í gær. Hana má lesa hér.
Athugasemd ritstj.: Fréttin hefur verið uppfærð og leiðrétt, en í upphaflegri frétt kom fram að fjárfestingin væri frágengin, en svo er ekki.