Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur ritað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og beðið um lengri frest til að svara erindi hennar vegna svokallaðs Samherjamáls. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi þess síðastliðinn föstudag og formanni ráðsins, Gylfa Magnússyni, var falið að rita umrædda beiðni.
Í frétt á vef Seðlabanka Íslands segir að vonir standi til „þess að hægt verði að ganga frá svari ráðsins til forsætisráðherra í upphafi nýs árs.“
Þann 8. nóvember síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Í dómnum er staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi í kjölfarið formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands bréf vegna umfjöllunar um dóm Hæstaréttar í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. þar sem óskað er eftir greinargerð bankaráðs um málið.
Óskað var eftir að greinargerðin berist forsætisráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 7. desember. Bankaráðið óskaði eftir fresti þangað til síðar í desember þegar sú dagsetning kom upp. Nú hefur það óskað eftir að fresta málinu aftur.