Íslendingar versluðu meira á netinu í ár heldur en í fyrra. Nóvembermánuður er orðinn mikill netverslunarmánuður en kortavelta í innlendri netverslun Íslendinga var rúmlega 81 prósent meiri í nóvember síðastliðnum en í mánuðinum á undan. Auk þess jókst innlend kortavelta Íslendinga í netverslun um 15 prósent á milli ára en velta innlendra greiðslukorta Íslendinga í verslun jókst um 5 prósent á sama tímabili. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Bíða með jólainnkaupin fram að stóru afsláttardögunum í nóvember
Töluverður hluti jólaverslunar Íslendinga fer nú fram í nóvember samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar. En með stórum verslunardögum að erlendri fyrirmynd, svörtum föstudegi, degi einhleypra og netmánudegi, þá færist jólaverslun sífellt meira fram í nóvember.
Nokkuð dró úr kortaveltu Íslendinga í verslun á haustmánuðum og var samdráttur í októbermánuði til að mynda 4 prósent, samanborið við október 2017 en líkt og áður sagði var aukning í nóvember. Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar bendir þetta til þess að neytendur haldi í auknum mæli í sér með jólainnkaupin fram að þessum stóru afsláttardögum.
Netverslun á raftækjum jókst um 153,3 prósent á milli mánaða
Sérstaklega jókst netverslun á raftækjum í nóvember en hún jókst um 153,3 prósent á milli mánaða. Netverslun á raftækjum jókst einnig á milli ára en verslun jókst um 21,4 prósent ef borinn er saman nóvember 2018 og nóvember 2017. Hlutfall netsölu í raftækjum er 13 prósent af heildarsölu raftækja.
Einnig jókst netverslun með föt og heimilisbúnað í nóvember. Kaup á fötum á netinu jókst um 20 prósent á milli ára og um 15 prósent aukning var í netverslun á heimilisbúnaði. Svipaða sögu er að segja af byggingavöruverslunum, þar sem netverslun jókst um rúm 27 prósent í nóvember í ár, samanborið við árið í fyrra.