Gengi krónunnar styrtkist í dag, gagnvart helstu viðskiptamyntum, og hefur gert það síðustu viðskiptadaga, eftir skarpa veikingu upp á rúmlega 10 prósent undanfarnar rúmar sex vikur.
Lesa má ítarlega um gengissveiflur krónunnur í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Markaðsvirði Icelandair hefur sveiflast mikið, upp og niður, en í dag hækkaði það um 5,24 prósent, sem telst umtalsverð hækkun innan dags í venjulega árferði.
Markaðsvirði félagsins er í dag um 43,3 milljarðar króna, en þegar það fór hæst, árið 2016, var það tæplega 180 milljarðar króna.
Ástæðan fyrir þessum sveiflum undanfarna daga, hafa verið tíðindi af viðræðum WOW air við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners, en ekki liggur fyrir ennþá hver verður niðurstaðan úr þeim viðræðum.
Forsvarsmenn Icelandair hafa þegar sagt, að félagið ætli sér að auka framboð flugsæa strax á næsta ári um allt að fjórðung.
Haft var eftir Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, þegar tilkynnt var um hópuppsanir á samtals um 350 starfsmönnum og mikinn samdrátt í flugleiðum, að farþegum mundi fækka úr 3,5 milljónum í ár í 2,1 milljón á næsta ári. Þetta gæti haft í för með sér fækkun erlendra ferðamanna til Íslands upp á 180 til 280 þúsund á ári.
Heildarfjöldi ferðamanna var í fyrra um 2,3 milljónir, en gert er ráð fyrir að fjöldinn fari í um 2,7 milljónir á þessu ári.
Ennþá eru í gangi viðræður milli WOW air og Indigo Partners, um fjárfestingu bandaríska félagsins í WOW air, en því ferli er ekki lokið enn, eins og áður segir. Flækjustig er þó nokkuð, þar sem semja þarf um skuldir félagsins á nýjan leik, við kröfuhafa, og leysa úr ýmsum lausum endum. Fjárfestingin gæti orðið upp á 75 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 9,3 milljörðum króna.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.