Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir Ríkisútvarpið (RÚV) sýna af sér valkvætt siðferðismat þegar hneykslismál koma upp. Það ráði úrslitum í mati fjölmiðilsins „hvar pólitíski merkimiðinn liggur.“
Í leiðara blaðsins í dag, sem ber öll merki þess að Davíð Oddsson, annar ritstjóra Morgunblaðsins, skrifi hann, er fullyrt að RÚV líti í raun á sig „sem dótturfélag Samfylkingar og Vinstri grænna (eða öfugt) og hefur lengi gert svo fráleitt er.“ Þar segir einnig að framganga RÚV „þegar reynt var að bylta landinu með valdi í kjölfar bankafallsins hefur aldrei verið rannsökuð þótt sjálfsagt væri[...]Markmiðið var að koma Samfylkingu og Vinstri grænum til valda og stuðla að ofsóknum gagnvart þeim sem þóttu standa í vegi þess. Eftir að slík stjórn var mynduð breyttist þessi öryggisstofnun í feimnislausa áróðursdeild fyrir þá ríkisstjórn. Frægast var það í baráttunni um Icesave.“
RÚV er ítrekað skotmark gagnrýni í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, hvort sem um er að ræða leiðara, Staksteina eða Reykjavíkurbréf. Ritstjórar blaðsins hafa árum saman ásakað ríkismiðilinn um að ganga erinda miðju- og vinstriflokka og taka þátt í pólitískum samsærum gegn stjórnmálamönnum sem eru ritstjórunum þóknanlegri. Ástæða leiðaraskrifana í dag er hið svokallaða Klausturmál. Höfundur kemur að þeirri niðurstöðu að „í síðustu lotu hneykslismála kemst Ríkisútvarpið að sömu niðurstöðu og síamstvíburinn, Samfylkingin: Vemmilegt og viðurstyggilegt fjas ölvaðra er verra mál en fjasið í verki.“ Í kjölfarið er fullyrt að Samfylkingin hafi sett á fót þöggunardeild til að koma í veg fyrir að kynferðisbrotamál komist upp og er þar vísað í svokallaða trúnaðarnefnd flokksins.