Bára Halldórsdóttir, sem hljóðritaði samtal sex þingmanna á barnum Klaustri þann 20. nóvember, var boðuð til þinghalds í Héraðsdómi Reykjavíkjur í gær. Lögmaður þeirra fjögurra þingmanna Miðflokksins sem komu við sögu í Klaustursmálinu fór fram á að myndefni úr eftirlitsmyndavélum Alþingis og Dómkirkju yrði varðveitt og lagt fyrir dóm. Verjendur Báru mótmæltu kröfu lögmannsins.
Telja að brotið hafi verið á rétti þeirra til einkalífs
Fjórir þingmenn Miðflokksins, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason eru skráðir sóknaraðilar á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Reimar Pétursson, lögmaður þeirra, sagði að þingmennirnir fjórir hefðu málshöfðun til skoðunar og að markmiðið með vitnaleiðslubeiðni væri einfalt, þeir vildu tryggja að sannað yrði hvernig brotið hefði verið gegn þeim.
Í Héraðsdómi í gær fór Reimar fram á að lagt yrði fyrir dóm myndefni af eftirlitsmyndavélum Alþingis og Dómskirkjunnar sem myndi sanna hvernig brotið hefði verið gegn þingmönnunum. Hann sagði að mikilvægt væri að tryggja tilvist myndefnisins áður en varðveislutími þess rynni út en viðmiðunarregla Persónuverndar er 90 dagar. Sá varðveislutími væri ekki nægjanlegur ef til dómsmáls kæmi.
Reimar sagði að með myndefninu ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig Bára hefði haldið upptökunni leyndri fyrir þingmönnunum og hvort einhverjir hefðu framkvæmt brotið með henni. „Umbjóðendur mínir vilja tryggja sönnun um það hvernig að brotinu gegn þeim var staðið,“ sagði Reimar. „Umbjóðendur mínir telja að freklega hafi verið brotið á rétti þeirra til einkalífs. Þetta hafi gerst þegar einkasamtal á Klaustri var hljóðritað að þeim óafvitandi og gert opinbert. Í því hafi falist brot gegn 229. grein almennra hegningarlaga,“ sagði hann og benti á að þessi háttsemi gæti varðað skaða- og miskabótaskyldu.
Verjendur Báru mótmæltu kröfu sóknaraðila
Verjendur Báru, lögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, mótmæltu kröfu sóknaraðila um að leggja myndefnið fyrir dóm. Þeir bentu á umfjöllun Stundarinnar um málið og sögðu Báru þar hafa greint ítarlega frá því hvernig atvikum var háttað.
Dómari ætlar að taka málið til úrskurðar og sagði hann að vonandi yrði hann kveðinn upp í vikulok, það gæti þó dregist.
Fjöldi fólks mætti til að sýna Báru stuðning
Í samtali við fréttastofu Rúv í gær sagði Bára það af og frá að hún hefði átt sér samverkamenn eða að hún hefði tekið upp samtalið með öðrum hætti en hún hefur lýst. „Það finnst mér skemmtilega fáránlegt. Ég lýsti því í Morgunútvarpinu á Rás 2 að ég er ekki mjög óáberandi manneskja þannig að ef ég hefði verið að elta þá á röndum þá hefðu þeir átt að vera búnir að taka eftir mér og ég skapaði ekki orðin sem þeir komu frá sér heldur,“ sagði Bára.
Fjölmenni beið Báru er hún gekk inn í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær til að sýna henni stuðning og hvetja hana til dáða.
„Ég er ein af þeim sem hef hlustað á svona tal alla mína ævi og mér fannst það þess virði að koma því beint og hrátt út og hægt að ræða um hvernig veröldin er stundum,“ sagði Bára að lokum í samtali við Rúv.