Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að áform ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts verði endurmetin ef samið verði um óábyrgar launahækkanir í komandi kjarasamningum. Bjarni segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að til þess að unnt verði að lækka skatta þurfi launahækkanir að vera innan þess svigrúms sem er fyrir hendi. Hann segir að tekjur ríkissjóðs gætu orðið minni en spáð var vegna óvissu í ferðaþjónustu og mögulegs samdrátt vegna óróa í fluginu.
„Við þurfum að fara að snúa umræðunni á Íslandi upp í það fyrir hvaða launahækkunum er svigrúm í hagkerfinu. Ef launahækkanir eru langt umfram það svigrúm sem er sannarlega til staðar í hagkerfinu fer að vera mikið vafamál hvort stjórnvöld gera rétt í því að fylgja eftir áformum um lækkanir á tekjuskatti einstaklinga,“ segir Bjarni í viðtalinu.
Skattalækkanirnar hugsaðar fyrir lægri tekjuhópa
Bjarni segir að skattalækkanirnar hafi verið boðaðar í þágu þeirra sem eru neðra skattþrepinu en að óskynsamlegt væri að fylgja því eftir að ef kjarasamningar fari úr böndunum. „Við höfum boðað skattalækkanir í þágu þeirra sem eru í neðra þrepinu, lægri og millitekjuhópunum, en það er óskynsamlegt að fylgja því eftir ef kjarasamningar fara úr böndunum og menn eru að taka út meira en innistæða er fyrir. Þá þarf að huga mjög vel að tímasetningu slíkra aðgerða. Þær eru hugsaðar til að greiða fyrir samningum en ekki til að greiða fyrir óábyrgum samningum,“ segir Bjarni.
Verðbólguspáin versnað
Fjármálaráðherra segir það óskynsamlegt að lækka tekjuskatt ef Seðlabankinn væri á sama tíma að draga úr spennu í hagkerfinu með hækkun vaxta. Bjarni segir að það sé ákveðin launa- og verðlagsforsendur í fjárlagafrumvarpinu. Upphaflega var gert ráð fyrir 0,5 prósent kaupmáttaraukningu á næsta ári í frumvarpinu, miðað við verðbólguspá þegar fjárlögin voru tekin saman. „Síðan versnaði verðbólguspáin og við sögðum að við það myndi svigrúm til launahækkana í sjálfu sér ekkert breytast, ekkert vaxa. Þannig að við breyttum ekki launa- og verðlagsforsendunum, “ segir Bjarni. Hann segir jafnframt að ef samið verði um laun sem eru umfram forsendur fjárlaga þá gæti mögulega þurft að láta reyna á varasjóð.
Þarf að taka með í reikninginn lífeyrisskyldbindingar ríkisins
Bjarni bendir á í viðtalinu að taka þarf í reikning hverjar afleiðingar verða fyrir lífeyrisskyldbindingar ríkisins ef samningar þróast með tilteknum hætti. „Við erum búin að gefa okkur ákveðnar forsendur og höfum eitthvert svigrúm í varasjóðnum, að því gefnu að hann verði ekki notaður í annað ófyrirséð og óvænt.“ Bjarni segir að ef honum hefur ekki verið ráðstafað í annað kann að vera að ríkissjóður hafi einhvers konar stuðpúða í varasjóðnum en að ekki sé hægt að segja til um það á þessari stundu.
Með varasjóði vísar Bjarni til almenns varasjóðs í fjárlögum sem er ætlað að mæta ófyrirséðum, óvæntum og óumflýjanlegum útgjöldum. „Sögulega séð höfum við ekki gefið því nægilegan gaum hvaða áhrif launabreytingar hjá opinberum starfsmönnum hafa haft á eftirlaunaskuldbindingar ríkisins. Það hefur í einstaka tilvikum hlaupið á milljörðum, eða jafnvel milljarðatugum, sem eftirlaunaskuldbindingarnar vaxa án þess að nokkur sé að hafa áhyggjur af því,“ segir Bjarni að lokum í viðtalinu.