Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að kljúfa sig frá samfloti með Starfsgreinasambandinu í kjaraviðræðunum eins og Efling gerði í gær. Þetta kemur fram í frétt RÚV en Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA staðfesti þetta í samtali við fréttastofu RÚV í morgun.
Félagið hefur afturkallað samningsumboðið og gerir Vilhjálmur ráð fyrir því að kjaradeilunni verði vísað til Ríkissáttasemjara í dag eða á morgun.
Samninganefnd Eflingar samþykkti í gær að draga samningsumboð sitt til Starfsgreinasambandsins til baka. Tillaga þess efnis var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á fundi nefndarinnar. Í kjölfar þess hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, umboð til að ákveða hvort að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Hún segir að Efling hyggist vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara sem allra fyrst.
Samninganefnd Eflingar veitti Starfsgreinasambandinu samningsumboðið þann 25. september síðastliðinn. Fyrr í þessari viku felldi fundur aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins tillögu um að vísa kjarasamningaviðræðum strax til ríkissáttasemjara. Ellefu félög greiddu atkvæði gegn því en sjö vildu samþykkja. Meðal þeirra sem vildu samþykkja var Efling.
Í kjölfar þess að formannafundur Starfsgreinasambandsins hafnaði því að vísa kjaradeilunni strax til ríkissáttasemjara ákvað Eflingarfólk að endurskoða samflotið. Boðað var til fundar í Eflingu í gær og samkvæmt Sólveigu Önnu var ákvörðunin um að draga umboðið til baka nær einróma niðurstaða fundarins. „Þetta var því sem næst einróma niðurstaða fundarins og næstu skref eru að ég hef heimild frá samninganefndinni til að taka ákvörðun um hvenær við munum vísa viðræðunum til sáttasemjara,“ segir Sólveig Anna í Fréttablaðinu í dag.
Sólveig Anna sagði að félag sitt hefði róttækari sýn á kjarabaráttuna en þeir sem ráða för innan samflots Starfsgreinasambandsins í viðtali við RÚV í gærkvöldi. Hún sagði jafnframt að Efling hygði vísa kjaradeilunni strax til ríkissáttasemjara svo að embættið tæki strax að sér verkstjórn samningaviðræðna við viðsemjendur Eflingar.