Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, verði að segja af sér vegna Braggamálsins.
Þetta kemur framí færslu Vigdísar á Facebook, en hún segir borgarstjóra verða að taka ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í Braggamálinu. „Borgarstjóri er framkvæmdastjóri Reykjavíkur og ber ábyrð á öllum rekstri borgarinnar [...] Það er lítilmannlegt að skella skuldinni á brottfarinn embættismann skrifstofunnar þegar vitað er að þeir tveir voru í nánu vinnusambandi án borgarritara,“ segir Vigdís,.
Margt fór úrskeiðis í braggamálinu svokallaða en skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um endurgerð bragga og samliggjandi húsa við Nauthólsveg 100 var kynnt í borgarráði í morgun, en fjallað var um hana á vef Kjarnans fyrr í dag. Niðurstöðurnar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að málið kalli á viðbrögð til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Þau viðbrögð þurfi að tryggja að áhætta á slíku sé í lágmarki og að ef frávik verði, þá berist upplýsingar sem fyrst til borgarráðs svo hægt sé að grípa inn í í samræmi við samþykkt verklag.
Á fundi borgarráðs var samþykkt að koma ábendingum Innri endurskoðunar í skýrt ferli. Þar var borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa falið að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum í skýrslunni og tilgreint að þau viðbrögð taki til allra þátta málsins, segir í tilkynningunni.
Töluvert var fjallað um málið í fjölmiðlum í október síðastliðnum en kostnaður við framkvæmdir endurgerðar braggans fóru langt fram úr áætlun. Kostnaður við framkvæmdirnar nemur nú rúmlega 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir.
Hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna kostuðu 757 þúsund krónur. Framkvæmdum er enn ólokið en töluverð vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur.
Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinga
Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2015 hafi Innri endurskoðun gert úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og skilað skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. „Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði.“
Jafnframt segir að skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hafi frá upphafi verið býsna laust í reipum, skrifstofunni hafi verið ætlað að vinna hratt að því að afla borginni tekjutækifæra og það hefur komið niður á skipulagi og innra eftirliti. „Jafnvel hefur það orðið til þess að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefur ekki farið að settum leikreglum, til dæmis hvað varðar innkaup. Fyrrum skrifstofustjóri hafði þann stjórnunarstíl að úthluta verkefnum til starfsmanna sem síðan lögðu metnað í að leysa þau sjálfstætt og hann hvorki hafði eftirlit með framvindu verkefnanna né kallaði eftir upplýsingum um stöðu þeirra. Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar,“ segir í skýrslunni.