WOW air hefur skrifað undir samning þess efnis að selja fjórar Airbus flugvélar til Air Canada. Í tilkynningu frá félaginu segir að í kjölfar sölunnar muni sjóðstaða WOW air batna um 12 milljónir Bandaríkjadala. Stjórn WOW air hefur samþykkt viðskiptin en þessi sala er hluti af endurskipulagningu félagsins en samkvæmt tilkynningunni hefur það legið fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðasveiflu og hámarka arðsemi.
„Þetta er mjög jákvætt og mikilvægt skref í endurskipulagningu WOW air þar sem við bæði minnkum flotann og bætum lausafjárstöðu félagsins með sölu á þessum flugvélum,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.
Um er að ræða Airbus A321 vélar sem WOW air hefur verið með á kaupleigu frá 2014. Vélarnar verða afhentar í janúar 2019.