Robert Shiller, prófessor í hagfræði við Yale háskóla, segir í viðtali við New York Times í dag, að miklar lækkanir á hlutabréfamarkaði að undanförnu, séu farnar að hafa áhrif á hugsunarhátt margra fjárfesta. Þeir hugsi nú: kannski ætti ég að selja?
Verðhrunið hefur verið það mesta síðan fyrir áratug, þegar alþjóðamarkaðir gengu í gegnum fjármálakreppu og erfiðleika.
S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 22 prósent frá því í ágúst. Margir búast við því, að hlutabréfamarkaðir muni renna inn í óvissutímabil á nýju ári, þar sem vextir hafa farið hækkandi og umfangsmiklar fjárinnspýtingaraðgerðir seðlabanka, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, eru nú að hætta. Seðlabanki Evrópu hættir formlega með kaupáætlun sína á skuldabréfum í janúar, en frá því árið 2012 hefur hann keypt skuldabréf þjóðríkja og fyrirtækja fyrir 60 milljarða evra í mánuði, til að styðja við hagvöxt. Áætlunin þykir hafa heppnast vel, en enginn veit hvað mun gerast þegar hún stöðvast.
President Trump reportedly discussed firing Federal Reserve chairman over interest rates and stock market losseshttps://t.co/GrURac6uaZ
— TIME (@TIME) December 22, 2018
Vísitölur flestra geira á hlutabréfamarkaði hafa lækkað mikið, og má nefna að tæknirisarnir hafa hrapað í markaðsvirði eftir að hafa náð hámarki um mitt ár. Fjórðungur markaðsvirðist margra stærstu tæknifyrirtækja heimsins, eins og Amazon, Facebook og Apple, hefur þurrkast út á átta vikum.
Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað stýrivexti fjórum sinnum á þessu ári, og eru þeir nú 2,5 prósent. Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hefur tekið þessu illa, og gagnrýnt bankann harðlega fyrir að hækka vextina.
Greint var frá því fjölmiðlum í Bandaríkjunum í morgun, meðal annars í Washington Post, að Trump hefði rætt það við samstarfsfólk sitt, hvort réttast væri að reka Jerome Powell, seðlabankastjóra, vegna vaxtahækkana.