„Hlutabréfaverð hefur aldrei verið hærra (stocks are all time high)“. Þetta var algeng setning í tístum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á fyrst ári hans í embætti, eftir að hann tók við valdaþráðunum í Hvíta húsinu í janúar 2017.
Þá hækkaði hlutabréfaverð jafnt og þétt, og mikil stemmning virtist ríkja á Wall Street yfir komu viðskiptajöfursins í forsetastólinn.
Þessi tíst forsetans sjást ekki lengur, enda ekki tilefni til að setja þau fram.
Óhætt er að segja að árið 2018 hafi ekki verið gott ár á Wall Street. Sérstaklega hafa síðustu þrír mánuðir verið mikil rússíbanareið.
The only problem our economy has is the Fed. They don’t have a feel for the Market, they don’t understand necessary Trade Wars or Strong Dollars or even Democrat Shutdowns over Borders. The Fed is like a powerful golfer who can’t score because he has no touch - he can’t putt!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 24, 2018
Verðhrun hefur verið á hlutabréfamarkaði, og lækkaði S&P 500 vísitalan um meira en fjórðung frá september mánuði og fram til dagsins í dag. Heildarávöxtun fyrir árið er neikvæð, og horfur um framhaldið inn í byrjun næsta árs þykja óljósar.
Hækkun við opnun markaða í dag, er sárabót eftir mikla lækkunahrinu, segir í umfjöllun Wall Street Journal. S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,64 prósent við opnun markaða.
Spjót Bandaríkjaforseta hafa beinst að Seðlabanka Bandaríkjanna, þegar kemur að verðhruninu, en hann hefur fjórum sinnum hækkað vexti á þessu ári. Stýrivextir eru nú 2,5 prósent, og bendir spá bankans til þess að þeir muni halda áfram að hækka á næsta ári, en þó minna og hraðar en fyrri spár bankans höfðu gert ráð fyrir.
Tímibili ódýrs fjármagns virðist lokið, en vöxtum í Bandaríkjunum var haldið í kringum núllið í meira en átta ár, frá því að alþjóðakreppan náði hámarki á árunum 2007 til 2009.
Helstu hagtölur frá Bandaríkjunum eru þó jákvæðar, á flesta mælikvarða. Atvinnuleysi er lítið, eða í kringum fjögur prósent, og hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár þykja nokkuð góðar, en seðlabankinn býst við hagvexti upp á 2 til 3 prósent.