Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að ýmsar hækkanir á gjöldum sem taka gildi nú um áramót „tali beint inn í kjarasamningsviðræður“ fram undan.
Framundan eru hækkanir nú um áramót, bæði hjá ríkinu og sveitafélögum, og segir Drífa að þetta hafi áhrif á kjör fólks. „Allar hækkanir, breytingar á gjaldskrám og hreyfingar hjá hinu opinbera sem hafa áhrif á kjör fólks tala inn í kjarasamninga. Nú bera allir ábyrgð á því að ná settum markmiðum, þ.e.a.s. að þyngja ekki róðurinn heldur létta hann fyrir tekjulægstu hópana. Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að það skuli stefnt að því að hækka laun þeirra lægst launuðu. Við verðum öll að róa í sömu átt,“ segir Drífa í viðtali við Morgunblaðið.
Auglýsing
Drífa segir í viðtali við Morgunblaðið að hún vilji sjá frekari aðkomu stjórnvalda að kjaraviðræðunum. Þetta eigi einkum við um húsnæðismál og skattamál. „Ríkisstjórnin hreykir sér af því að hafa hækkað persónuafslátt umfram verðlag. Þetta eru rúmlega fimm hundruð krónur og þær vega ekki rosalega þungt. Barnabætur eru ekki orðnar það sama og þær voru fyrir tíu til fimmtán árum,“ segir Drífa í viðtali við Morgunblaðið.