Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það sjaldan hafa verið mikilvægara en nú að sýna fram á að hægt sé að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, í aðsendri grein í Tímamótum, aukablaði Morgunblaðsins. Í greininni fjallar Katrín um að blikur séu á lofti í heimsmálunum og sjá megi að á alþjóðavettvangi sé tilhneiging til að loka sig af og byggja upp múra á milli sín og „hinna“. Hún segir að ein leið til þess að hafna þessum múrum sé að leyfa sér að vinna með þeim sem séu manni ósammála og bendir meðal annars á samvinnu ólíkra flokka í ríkisstjórn hennar.
„Ein helsta gagnrýni sem höfð hefur verið uppi á þá ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki snúist um verk hennar heldur að hún hafi yfirleitt verið mynduð og að ólíkir flokkar hafi náð saman um stjórn landsins. En mín reynsla er sú að það að vinna með þeim sem eru manni ósammála geri mann stærri,“ segir Katrín.
Aðrar leiðir en múrar og hindranir
Í grein sinni fjallar Katrín um hvernig heimsmynd þjóða mótast oft af óttanum við hina og hvernig sú tilhneiging að einangra sig frá „hinum“ ógni hefðbundnum skilningi okkar á mannréttindum. Hún segir að múrarnir fjarlægi fólk frá hvert öðru og ali á tortryggni. „Múrarnir eru ekki allir áþreifanlegir. Suma sjáum við alls ekki á veraldarvefnum en þeir skipta okkur upp í ólík bergmálsherbergi þar sem við tölum hvert við annað og ekki við hin sem eru ólík okkur.“
Katrín segir að til séu aðrar leiðir en að byggja múra og reisa hindranir. Ein leið sé til dæmis að byggja upp ákveðna samfélagslega innviði og tryggja þannig að allir eigi eitthvað í samfélaginu. Hún bendir þar á mikilvægi almannaþjónustu og að sú þjónusta hafi því hlutverki að gegna að tvinna saman ólíka þræði samfélagsins og tryggja að allir sitji við sama borð. „En auk heldur tryggir hún líka að við séum öll virkir þátttakendur í sama samfélagi sem er einmitt forsenda þess að lýðræðið dafni. Þess vegna er hún ein af undirstöðum lýðræðisins og brýtur niður múra. Tryggir að við eigum samfélagið,“ segir Katrín.
Sjaldan mikilvægra að sýna fram á hægt sé að taka tillit til ólíkra sjónarmiða
Katrín segir í grein sinni að önnur leið sé að ólíkir aðilir vinni samhentir að sameiginlegum markmiðum. Hún bendir þar á að reglulegt samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafi meðal annars snúist um að auka skilning á milli þeirra sem sitja við borðið.
Ennfremur segir hún frá því hvernig ein helsta gagnrýnin á núverandi ríkisstjórn hafi ekki snúist um verk hennar heldur að hún hafi yfirhöfuð verið mynduð. „Stjórnmálamenn með sundrandi orðræðu sem miðar að því að skipa fólki í hópa og hengja á þá jákvæða og neikvæða merkimiða allt eftir því hvað þjónar þeirra hagsmunum eru stjórnmálamenn sem vilja byggja múra. Markmið þeirra er gjarnan að sundra og grafa undan þeim lýðræðislegu gildum sem hafa tryggt stórstígar framfarir í mannréttindamálum, hagsæld og öryggi,“ segir Katrín.
„Sjaldan hefur það því verið mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, samfélaginu öllu til heilla,“ segir Katrín að lokum.