Sólveig Anna var kosin formaður Eflingar, næst fjölmennasta verkalýðsfélagi landsins, í mars á þessu ári. Í kynningu um mann ársins segir að róttæk framganga Sólveigar hafi vakið þjóðarathygli og að sú ósveigjanleg kröfugerð sem hún tali fyrir geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífskjör þorra landsmanna.
Spurði formennina hvort þeir gætu lifað á lægstu launum
Sólveig sagði í Kryddsíldinni að laun hinna lægst settu í íslensku samfélagi væru skelfilega lág og að ómögulegt væri að lifa á slíkum launum. Hún sagði jafnframt að krafa Eflingar um hækkun lágmarkslauna í 425 þúsund krónur væri ófrjávíkanleg.Aðspurð sagði hún sitt fyrirmyndarsamfélag vera samfélag réttlætis og jöfnuðar. „Þar sem allt fólk fengi að blómstra og rækta hæfileika sína og að fólk þyrfti ekki að lifa með skugga efnahagslegrar óvissu yfir sér. Ég held að slíkt samfélag sé besta mögulega samfélagið.“
Í kjölfarið beindi hún orðum sínum að forystufólki stjórnmálaflokka Alþingis sem einnig var statt í salnum fyrir Kryddsíldina. Hún spurði hvort að formennirnir treystu sér til að lifa á lægstu launum landsins. Hvort þau treystu stér til að tryggja efnahagslegt öryggi sitt og fjölskyldu þeirra á þeim „smánarlegu launum“ sem mörgum sé greitt.
Sólveig sagðist einnig ætla nýta tækifærið og spyrja formennina hvort þeir væru tilbúnir að stíga fram og styðja kröfu verkalýðsfélaganna. „Mig langar jafnframt að spyrja þau hvort þau sjái sér ekki fært að stíga fram og styðja við kröfuna okkar um 425 þúsund króna lágmarkslaun til handa þeirra sem hér vinna á lægstu laununum. Hvort við getum ekki sameinast í því í þessu ríka landi, sem vill kenna sig við lýðræði og mannréttindi, að tryggja öllum sem hér lifa og starfa efnahagslegt réttlæti og sanngirni?“
Erfitt að eiga fjölskyldu og lifa á lágmarkslaunum
Enginn af formönnunum sagðist treysta sér í að lifa á lágmarkslaunum nema Inga Sæland formaður Flokks fólksins en hún sagðist treysta sér til lifa á þessu „lúsarlaunum“ enda hafi hún gert það oft áður. Inga óskaði Sólveigu til hamingju með titilinn og sagðist líta upp til baráttufólksins í verkalýðsbarátunni. Hún sagði ákveðna veruleikafirringu einkenna stjórnvöld hér á landi og það yrði að koma til móts við fólkið í landinu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki geta lifað á lægstu launum með sín fjögur börn. Hann sagði að samkvæmt tölum Hagstofunnar búi aðeins 1 prósent þjóðarinnar við lágmarkslaun og 10 prósent þjóðarinnar væri með laun undir 400 þúsund krónur. Bjarni sagði ennfremur að fólk yrði að gæti sig á spyrja slíkra spurninga, að spyrja hvort að lægsti taxti dugi öllum. Hann sagðist vita af einstaklingum í námi sem geti lifað á slíkum launum ef þeir nýttu sér einnig námslán. Bjarni sagði að lámarkslaun geti því dugað fyrir suma en vissulega ekki fyrir alla og ekki þá sem fjárfesta í fasteign og reka fjölskyldu.
Halldóra Mogenssen, þingmaður Pírata sagðist einnig vera mjög ánægð með að Sólveig væri maður ársins. Hún sagði jafnframt að enginn ætti að þurfa lifa á svona lágum launum og sagði það í raun mjög dýrt fyrir samfélagið allt. Hún beindi því spurningunni til leiðtoga ríkisstjórnarinnar og spurði hvað fátækt kostaði samfélagið í heild sinni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist sannarlega ekki geta lifað á lágmarkslaunum með fjölskyldu. Hann ítrekaði mikilvægi þess að ekki væri eytt tíma í að tala um eitthvað „rugl“ í stjórnmálum því þá gæfist ekki tími til að tala um önnur mál til dæmis kjaramál. Hann sagði það hins vegar ekki gerast vegna þess að fólk væri svo upptekið af Klausturbar og „einhverju rugli“.