Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að þeir sem njóti efnislegra gæða, eins og hann sjálfur, freistist stundum til þess að segja öðrum að þau skipti ekki sköpum í lífinu. „Þannig oflæti og skilningsleysi er ósanngjarnt. Hinu vil ég þó bæta við að á mínum æskustöðvum sást ríkidæmi víða. Barnshugurinn greindi samt stundum að hamingja er ekki endilega mæld í fermetrum. Síðar hefur mér sýnst sem orð nóbelsskáldsins séu sígild: „því hvað er auður og afl og hús / ef eingin jurt vex í þinni krús.““
Þetta er meðal þess sem fram kom í nýársávarpi forsetans sem flutt var í dag. Þar fór forsetinn um víðan völl og fjallaði um fullveldisafmæli þjóðarinnar, kulnun og streitu, fíknivanda, loftlagsbreytingar, örbirgð, ófrið, flóttamannavandann, vaxandi spennu í samskiptum ríkja, misskiptingar heimsins gæða og aðrar skæðar ógnir nútímans, svo fátt eitt sé nefnt.
En hann rakti líka að lífskjör hérlendis hafa verið stórbætt og að staðhæfa megi að mannkyninu í heild farnist nú betur en nokkru sinni fyrr, þótt sannarlega geti brugðið til beggja vona og einfaldar lausnir dugi skammt í flóknum veruleika. „En framtíðin er í okkar höndum ‒ farsæl ef við hrekjumst ekki af braut manngæsku og hyggjuvits, vísinda og rökhyggju.“
Forsetinn ræddi einnig um netið og miðla þess, sem farnir eru að skipa ríkari sess í samfélagi manna, og hvernig þessi breyting hefur aukið frelsi fólks til að tjá láta rödd sína heyrast. Guðni sagði það vel en að þessir kostir væru ekki alltaf nýttir til góðs. „Í nýársávarpi fyrir fimm árum benti forveri minn í embætti á að hin nýja tækni gæti opnað „flóðgáttir neikvæðni, illmælgi og jafnvel haturs“. Þau orð Ólafs Ragnars eiga enn við og einnig er við hæfi að rifja upp ummæli annars manns sem bjó um skeið hér á Álftanesi, að vísu fyrir um þremur öldum. „En sá sem reiður er, hann er vitlaus,“ þrumaði Jón biskup Vídalín, í frægri stólræðu sem orðið „reiðilestur“ er dregið af: „Heiftin ... afmyndar alla mannsins limi og liði, hún kveikir bál í augunum, hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna … Hún skekur og hristir allan líkamann, svo sem þegar hafið er upp blásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju.“ Þannig messaði meistari Jón þegar hann steig í stólinn sunnudag milli nýársdags og þrettándans. Vissulega er það svo að reiði getur verið réttmæt. Meira að segja má vera að hún efli fólk til dáða en hamslaus heift skilar engu, og fúkyrði því síður. Og hér gilda sömuleiðis þau ritningarorð að sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.“