Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 2,5 prósent en Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vextina í fjórgang á árinu 2018, sem reitti Bandaríkjaforseta, Donald Trump, til mikillar reiði. Hann ræddi meðal annars opinberlega að Seðlabankastjórinn, Jerome Powell, væri orðinn „galinn“ (crazy).
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal í dag, víðlesnasta dagblaðs Bandaríkjanna, eru margir fjárfestar, þar á meðal fagfjárfestasjóðir, farnir að veðja á að Seðlabankinn muni fara sér hægar í vaxtahækkunum á þessu ári og þá hægar en efnahagsspár bankans hafa gert ráð fyrir.
Það gæti haft jákvæð áhrif á þróun eignaverðs, en árið í fyrra var það versta á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í áratug.
Samkvæmt þeim var horft til þess að vextir gætu hækkað upp fyrir 3 prósent á árinu 2020, en fjárfesta telja nú að vextirnir gætu orðið þeir sömu í lok þessa árs og þeir eru nú í upphafi, eða 2,5 prósent.
A market indicator watched by the Fed as one of the most accurate gauges of economic health is pricing in lower rates for the first time in more than a decade https://t.co/a9qshGzUCE pic.twitter.com/Lfmesoz4Lc
— Bloomberg Markets (@markets) January 2, 2019
Ástæðan fyrir því að allra augu eru nú á vöxtunum er ekki síst sú, að þessi töluverða vaxtahækkun sem var á árinu 2018 hefur haft töluverð áhrif í bandarísku efnahagslífi, og meðal annars leitt til kælingar á fasteignamörkuðum vítt og breitt. Fasteignaverð er víða tekið að lækka, enda hækkar vaxtastigið fjármagnskostnað og getur þannig dregið úr eftirspurn eftir fasteignum.
Að öðru leyti eru hagtölur í Bandaríkjunum taldar jákvæðar þessi misserin. Atvinnuleysi mælist um 4 prósent, og hagvöxtur verður á bilinu 2 til 3 prósent á þessu ári ef spár ganga eftir.
Áhrif af tollastríði Bandaríkjanna og Kína hafa þó frekar reynst neikvæð fyrir Bandaríkin, en margar spár gera ráð fyrir að það fari að draga til tíðinda í viðræðum milli Bandaríkjanna og Kína, sem muni leiða til breytinga í viðskiptum landanna. Óvíst er þó hvernig sú breytingar verður og hvað hún mun þýða fyrir efnahagslífið í hvoru landi fyrir sig.