Hegningarlagabrotum sem tilkynnt voru til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu voru 9.762 talsins árið 2018 . Það eru um fimm prósentum fleiri brot en tilkynnt voru árið 2017. Um 350 mál voru skráð í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hverjum einasta sólarhring í fyrra að meðaltali. Það eru 70 fleiri mál á dag að meðaltali en árið á undan. Í heild voru skráð 16 prósent fleiri mál skráð hjá lögreglu árið 2018 en var að meðaltali 2015 til 2017. Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði ársins 2018.
Heimilsofbeldismálum fjölgar
Líkamsmeiðingum fjölgaði um sex prósent á árinu, sérstaklega meiriháttar líkamsárásum. Þetta er í takt við fjölgun ofbeldisbrota undanfarin ár og segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að fjölgun ofbeldisbrota megi rekja meðal annars til þess að breytingar hafa verið gerðar á skráningu heimilisofbeldismála.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri segir mikinn árangur felast í því að kynferðisbrotamál og heimilsofbeldismál komist inn á borð lögreglunnar í samtali við Fréttablaðið í dag. Hún segir að slík mál komi einnig í miklum mæli í gegnum Bjarkarhlíð sem sérhæfir sig í móttöku við þolendur ofbeldis.
Að mati Sigríðar Bjarkar hefðu mál sem koma frá Bjarkarhlíð alla jafna ekki ratað á borð lögreglu og því er það vel að þau mál séu tilkynnt. „Það er komið meira fé sem skilar sér í hraðari málsmeðferðartíma. En fyrst og fremst, það að setja kynbundið ofbeldi á oddinn sem áhersluatriði og að hugsa um þetta sem þjónustustofnun en ekki valdastofnun, það er að skila sér líka hvað þetta varðar,“ segir Sigríður Björk.
Þá fjölgaði kynferðisbrotum úr 300 í 387, þar af fjölgaði nauðgunarmálum mikið eða um 34 prósent milli ára. Einnig fjölgaði tilkynningum er varða kynferðisbrot gegn börnum um 28 prósent. Sigríður Björk segir að aukning í tilkynningum á kynferðisbrotum tengist aukinni tiltrúar á kerfinu og vegna aukinngar umræði í samfélaginu með tilkomu Me too hreyfingarinnar. Hún segir að allt slíkt umtal hjálpi.
Jafnframt var mikil aukning í vændi eða um 36 slíkar tilkynningar árið 2018 en aðeins níu árið á undan.
60 prósent aukning í innbrotum
Mikil fjölgun umferðarlagabrota varð árið 2018 en tæplega 45 þúsund slík brot voru skráð hjá lögreglunni. Umferðarlagabrotum fjölgaði um fimmtán prósent á milli ára. Umferðarbrotum hefur fjölgað mikið á síðustu árum en umferðarlagabrot hafa tvöfaldast á síðust tvö árum.
Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að afbrotum hafi fjölgað umtalsvert í fyrra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt innbrot fjölgaði um nærri 60 prósent á milli ára. Sigríður Björk segir að þar séu oft skipulagðir erlendir hópar að verki sem koma inn þegar velmegun hér er mikil. Hún segir að lögreglan hafi upprætt nokkra slíka hópa á árinu en svo virðist sem nýir hópar komi í staðinn.
Í andstöðu við þróun flestra tegunda brota fækkaði auðgunarbrotum aðeins vegna samdráttar í fjölda þjófnaðar-, gripdeildar- og fjárdráttarmála. Á sama tíma voru mun fleiri innbrot og rán tilkynnt lögreglu árið 2018 en 2017. Einnig fjölgaði tilkynningum um fjársvik.