Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það misskilning að verkalýðsforrysta leggi áherslu skattalækkanir. Hún segir að í staðinn leggi hún áherslu á réttlátt skattkerfi sem virki í alvöru sem jöfnunartæki. Hún leiðréttir misskilninginn í stöðufærslu á Facebook-síðu sinni í morgun og vitnar þar í orð Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, sem sagði í morgunútvarpi Rásar 1 í morgun að nýja verkalýðsforystan leggi áherslu á skattalækkanir og að það gangi þvert á norrænar hugmyndir um skattheimtu.
Leggja áherslu á að leiðrétta Stóru skattatilfærsluna
Sólveig segir í stöðufærslu sinni að „hin svokallaða nýja verkalýðsforysta“ leggi mikla áherslu á að leiðrétta það sem Stefán Ólafsson hefur kallað Stóru skattatilfærsluna. Sólveig segir að skattatilfærslan snúist um að skattbyrði þeirra sem minnst hafi á milli handanna hafi verið markvisst aukin meira og minna síðust tvo áratugi þannig að ríflega 50 prósent af lágmarkslaunum séu nú skattlögð. Ásamt því hafi barnabætur minnkað verulega og þeim sem þær fá fækkað og að sama megi segja um húsnæðisbætur.
Sólveig segir að þetta hafi verið gert í þeim tilgangi að létta skattbyrði á fjármagnstekjueigendur og þau sem mest hafa á milli handanna. Hún segir að þau sem mest hafi á milli handanna búi nú við fáránlega undanlátssemi en af fjármagnstekjum er aðeins greiddur 22 prósent skattur. „Þetta eru staðreyndir og þessu viljum við breyta. Við viljum td. að fjármagstekjuskattur verði hækkaður verulega svo að hann verði samskonar og hann er á Norðurlöndunum,“ segir Sólveig enn fremur.
„Þannig að það er rangt að við leggjum mikla áherslu á skattalækkanir; við leggjum alla áherslu á réttlátt skattkerfi sem virkar í alvöru sem jöfnunartæki og gerir líf vinnuaflsins (og þeirra sem af einhverjum ástæðum geta ekki unnið) betra og auðveldara og við leggjum alla áherslu á að hin auðugu í samfélaginu standi eðlileg skil á sínu til að halda hér uppi velferðarsamfélagi að norrænum sið, “ segir Sólveig að lokum í stöðufærslu sinni.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við HÍ sagði rétt áðan í morgunútvarpi Rásar 1 að "nýja verkalýðsforystan"...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Wednesday, January 2, 2019