Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hætt við áform um að umreikna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjötvörur frá Evrópusambandinu yfir í ígildi kjöts með beini. Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda segir að þetta sé mikið fagnaðarefni fyrir bæði neytendur og innflytjendur en slíkur umreikningur hefði skert tollfrjálsan innflutning um allt að þriðjungi samkvæmt félaginu.
Umreikningur til að koma til móts við áhrif tollasamnings við ESB
Íslensk stjórnvöld undirrituðu tollasamning við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir 17. september 2015. Samningurinn tók gildi 1. maí sl. og tók við af tollasamningi sem gerður var við Evrópusambandið árið 2007. Í apríl 2016 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að kanna áhrif tollasamnings við ESB, þar sem lagt var mat á hvernig einstaka búgreinar gætu tekist á við afleiðingar samningsins. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands og búgreinafélögum, Samtökum iðnaðarins, utanríkisráðuneytinu auk fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tveimur mánuðum síðar skilaði starfshópurinn af sér skýrslu þar sem fram komu tillögur í átta liðum.
Í maí 2018 kom tilkynning frá ráðuneytinu um af þeim átta tillögum sem starfshópurinn hafði lagt til væru tvær tillaganna nú þegar komnar til framkvæmda, tvær aðrar langt komnar en um fjórar hafði ekki verið tekin ákvörðun. Önnur tillaganna sem langt var á leið komin var tillaga um að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning væri miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingunni. Samkvæmt tilkynningunni var unnið að því að koma þessu til framkvæmda í kjölfar þess að nýir samningar við ESB hafði tekið gildi.
Tollasamningurinn við ESB, sem samþykktur var í maí á síðasta ári, stækkar tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt og samkvæmt skýrslu starfshópsins er tillögurnar lagðar fram til að koma til móts við áhrif tollasamningsins. Í ofangreindri tillögu myndi útreikningurinn virka þannig að ef til dæmis eitt kíló af beinlausu kjöti væri innflutt til landsins þá yrði reiknað hversu þungt kjötið væri með beini og sú þyngd tekin af kvóta innflytjanda kjötsins, en til að flytja inn kjöt til landsins þurfa innflytjendur að kaupa innflutningskvóta. Samkvæmt Félagi atvinnurekenda hefði þessi umreikningur skert tollfrjálsan innflutning um allt að þriðjung.
Félag atvinnurekenda gagnrýndi áformin um skerðingu kvótanna með umreikningi í erindi til ráðuneytisins í byrjun maí á síðasta ári. Í tilkynningu frá FA segir að félagið hafi bent á að hvergi sé kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvöru skuli miðaðir við kjöt með beini. Samningurinn tæki því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. Félagið benti jafnframt á að slíkir innflutningskvótar fyrir kjöt, byggðir á milliríkjasamningum, hefðu verið í gildi á Íslandi í 23 ár, eða frá því WTO-samningurinn tók gildi árið 1995. Alla tíð hefði verið miðað við innflutning á kjöti hvort heldur er með eða án beins.
Framkvæmd Evrópusambandsins breytt
Samkvæmt Félagi atvinnurekenda bar ráðuneytið fyrir sig að Evrópusambandið hefði við innflutning á íslensku lambakjöti á tollkvóta miðað við kjöt með beini. Í tilkynningu Michaels Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, sem birtist á Facebook 14. maí, kom fram að hvað varðaði allt annað kjöt, sem flutt væri út frá Íslandi til ESB á tollfrjálsum kvótum, væri miðað við nettóvigt. Hins vegar væri í gildi undantekning vegna lambakjöts sem ætti sér „sögulegar skýringar“.
Í svari ráðuneytsins við bréfi félagsins sem barst nú fyrir árslok, segir að nýlega hafi fengist þær upplýsingar frá Evrópusambandinu að framkvæmdinni hvað varðar innflutning kindakjöts hafi verið breytt og sé nú miðað við nettóvigt í öllum tilvikum. „Þar af leiðandi gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir því að svo stöddu að framkvæmdinni verði breytt frá því sem verið hefur hvað varðar ofangreint,“ segir í svarinu.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir þessa niðurstöðu fagnaðarefni í tilkynningu frá félaginu „Það er afar jákvætt að Evrópusambandið hefur tekið af allan vafa um framkvæmd samningsins sín megin og þá standa engin rök til þess að breyta framkvæmdinni á Íslandi. Umreikningurinn hefði skert verulega hag bæði neytenda og innflytjenda. Nú blasir hins vegar við að það aukna framboð á innfluttu kjöti á hagstæðu verði, sem samningurinn gaf fyrirheit um, mun ganga eftir,“ segir Ólafur.