Magnús Geir Þórðarson, sem verið hefur útvarpsstjóri RÚV frá því í mars 2014, mun verða það áfram næstu fimm árin. Þetta staðfestir Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Kári segir að það séu engin áform um að auglýsa starfið þótt fimm ára ráðningartímabili Magnúsar Geirs ljúki bráðlega. Hann muni sitja áfram í embættinu til ársins 2024.
Kári segir að Magnús Geir sé öflugur útvarpsstjóri, það sé mikið um að vera í Efstaleiti og að landsmenn verði varir við það á hverjum degi. „Stjórnin og hann stefna saman að því marki nú eins og áður að senda út öfluga dagskrá í öllum miðlum Ríkisútvarpsins og það er ýmislegt í farvatninu á nýju ári.“
Tilkynnt var um ráðningu Magnúsar Geirs sem útvarpsstjóra í janúar 2014. Hann tók svo formlega við embættinu 1. mars sama ár. Magnús Geir hafði áður verið leikhússtjóri Borgarleikhússins.
Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðils í almannaþágu, er útvarpsstjóri ráðinn til fimm ára í senn. Hann er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem er langumsvifamesta fjölmiðlafyrirtæki landsins, og æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Samkvæmt lögunum er heimilt að endurráða útvarpsstjóra einu sinni. Stjórn RÚV hefur ákveðið að gera það.
Tekjur fara yfir sjö milljarða
RÚV nýtur þeirrar sérstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði að vera bæði fjármagnað úr ríkissjóði og geta keppt á samkeppnismarkaði um tekjur við aðra fjölmiðla. Á fjárlögum ársins 2018 fékk RÚV til að mynda úthlutað 4,2 milljörðum króna úr ríkissjóði og gera má ráð fyrir því að samkeppnistekjur fyrirtækisins, sem felast fyrst og síðast í sölu auglýsinga og kostunar,hafi verið nálægt 2,5 milljörðum króna í fyrra, ef miðað er við að fyrirtækið hafi haft sömu tekjur af þeirri starfsemi og árið 2017 að viðbættum 200 milljóna króna viðbótartekjum vegna HM í knattspyrnu, sem sýnt var á RÚV í fyrrasumar. Alls vinna á annan tug manns í fullu starfi hjá RÚV við að sinna sölu á auglýsingum, sölu á efni og leigu á dreifikerfi.
Til viðbótar við ofangreindar tekjur fékk RÚV 222 milljóna króna framlag á fjáraukalögum ársins 2018.
Í skýringum á framlaginu í frumvarpi til fjáraukalaga sagði að þetta sé til samræmis við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi. „Um er að ræða leiðréttingu á lögbundnu framlagi til RÚV en í fjárlögum ársins 2018 var fjárveiting 222 m.kr. lægri en tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi gerði ráð fyrir.“
Ljóst er að miðað við þetta munu tekjur RÚV aukast umtalsvert á næsta ári og fara yfir sjö milljarða króna.
Byggingaréttur og breyttir skilmálar
RÚV hefur getað aukið rekstrarhæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og framlögum á síðustu árum. Árið 2017 var afkoma RÚV jákvæð um 321 milljón króna og þar skipti hagnaður af sölu á byggingalóðum í Efstaleiti sköpum, en heildarsöluverð þeirra var um tveir milljarðar króna.
Auk þess samdi RÚV í maí 2018 við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega er lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða er höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuldarinnar mun teygja sig til nýrra kynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru 282,5 milljónir króna í fyrra.