Síðasta sumar lagði starfshópur um endurskoðun ramma peningastefnunnar Íslands til að Seðlabankinn birti eigin stýrivaxtarspá sem leið til að bæta væntingastjórnun Seðlabankans. Peningastefnunefnd Seðlabankans telur hins vegar að sú leið sé ekki rétt en nefndin segir að birting spárinnar geti verið afvegaleiðandi og hjálpi ekki til við að upplýsa fjárfesta og almenning um líklega þróun stýrivaxta bankans. Enn fremur geti birting spár af hálfu sérfræðinga Seðlabankans sem er í grundvallaratríðum ólík sýn meirihluta peningastefnunefndar skapað aukna óvissu. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Telja að birting einnar spár hjálpi ekki til við að upplýsa markaðinn
Starfshópurinn um ramma peningastefnu var skipaður í mars árið 2017 og hópurinn skilaði skýrslu þann 5. júní síðastliðinn. Í skýrslunni lagði hópurinn meðal annars til víðtækar breytingar á hlutverki Seðlabankans. Í nefndinni sátu hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, sem var formaður hennar Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Fjórar tillögur nefndarinnar sneru að ákvörðunarferli peningastefnunnar og þar á meðal lagði hópurinn til að Seðlabankinn birti stýrivaxtaspáferil í Peningamálum fjórum sinnum á ári. Stýrivaxtaspáferlar Seðlabankns liggja til grundvallar verðbólguspá bankans. Starfshópurinn telur að þannig sé unnt að styrkja markaðsvæntingar og auka gagnsæi í langtíma vaxtastefnu bankans.
Peningastefnunefndin fjallaði um tillögur starfshópsins um ramma peningastefnununnar á fundi í síðasti mánuði og birt hefur verið afstaða bankans varðandi einstakar tillögur. Í greinargerð bankans segir að peningastefnunefndin sé ósammála tillögu starfshópsins um birtingu stýrivaxtarspáferla og bendir á að vaxtaspá Seðlabankans sé gerð af sérfræðingum bankans og sé því ekki spá peningastefnunefndarinnar. Nefndin telur því að ósamræmi geti skapast á milli spár bankans og væntinga þeirra sem ákveða vexti bankns, sem eru nefndnarmenn í peningastefnunefnd um framtíðarþróun vaxtanna.
Ásamt því telur nefndin að birting spárinnar geti gefið til kynna meiri vissu en í raun sé fyrir hendi. Peningastefna sé ekki „verkfræðilegt“ úrlausnarefni sem hægt sé að leysa með stærðfræðilíkönum, til þess sé óvissan of mikil.
Nefndin nefnir sem dæmi að innan hennar séu afar ólíkar skoðanir á því hverjir jafnvægisvextir Seðlabankans séu. Því óttist nefndar menn að birting einnar spár hjálpi ekki til við að upplýsa markaðinn um líklega þróun vaxta bankans.
Í peninganefnd Seðlabankans sitja nú Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson sem er aðalhagfræðingur nefndarinnar, Gylfi Zoëga prófessor við Háskóla Íslands og Katrín Ólafsdóttir, Lektor við Háskólann í Reykjavík.
Starfshópurinn lagði til að bankinn tæki upp umferðarljósarkerfi nýsjálenska seðlabankans
Í skýrslunni var einnig að finna tvær tillögur sem snúa að markvissari beitingu stjórntækja Seðlabankans. Önnur tillagan snýr að því að Seðlabanki Íslands taki mið af „umferðarljósakerfi“ nýsjálenska seðlabankans með það fyrir augum að skapa skýrar leikreglur í kringum ákvarðanatöku og miðlun upplýsinga um gjaldeyrisinngrip. Peningastefnunefndin telur tillöguna skoðunarverða en telur að hugsa þurfi hana betur. Nefndin hyggst því að koma á fót vinnuhóp á næstu mánuðum sem fær það hlutverk að leggja mat á inngripastefnu bankans.
Samkvæmt umfjöllun Markaðarins lýsir nýsjálenska kerfið sér þannig að seðlabankinn beitir einungis inngripum á gjaldeyrismarkaði ef gengi gjaldmiðilsins, nýsjálenska dalsins, er komið umfram það sem samræmst getur grundvallarhagstærðum hagkerfisins. Gjaldeyrisinngrip verða þannig með síðustu viðbrögðum seðlabankans við gengissveiflum og því afar fátíð. Skýrar leikreglur gilda einnig um inngripin.
Peningastefnunefndin bendir þó á að takmörk séu fyrir því hve fyrirsjáanleg gjaldeyrisinngrip seðlabanka geti verið án þess að hætta skapist á að fjárfestar „krói bankann af og hagnist á einhliða veðmálum. Reynslan hefur sýnt að það getur verið varasamt að seðlabankar dragi línu í sandinn í þessum efnum,“ segir nefndin.