Ragnhildur Geirsdóttir er hætt sem aðstoðarforstjóri WOW air og hefur verið ráðin forstjóri Reiknistofu bankanna (RB). Hún hafði gegnt aðstoðarforstjórastöðu hjá flugfélaginu frá því í ágúst 2017. Ragnhildur mun taka við af Friðriki Snorrasyni sem sagði upp störfum á síðasta ári eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í tæp átta ár.
Í tilkynningu frá RB kemur er haft eftir Ragnhildi að RB sé spennandi fyrirtæki sem eigi sér langa sögu. „Hjá fyrirtækinu starfar hópur af afar hæfu starfsfólki sem verður gaman að vinna með að þeim breytingum sem framundan eru“.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akransi og stjórnarformaður RB segir að Ragnhildur sé öflugur leiðtogi með víðtæka reynslu sem muni nýtast RB vel. „Fyrirtækið hefur verið að taka miklum breytingum á síðustu árum og munu þær halda áfram enda leikur RB stórt hlutverk í að auka gæði og hagkvæmni í fjármálakerfinu á Íslandi, m.a. með rekstri helstu grunnkerfa fjármálafyrirtækja“.
Ragnhildur er verkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt. Hún lauk CS prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MS prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Wisconsin árið 1996 og MS prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998.
RB er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Hjá RB starfa tæplega 170 manns. Eigendur fyrirtækisins eru stærstu fjármálafyrirtæki landsins. Þeir eru Arion banki, Borgun, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika banki, Samband íslenskra sparisjóða, Sparisjóðir landsins og Valitor.