Hartnær 30 prósent Íslendinga eru hlynnt auknum einkaframkvæmdum í samgöngumálum en næstum þriðjungur er andvígur þeim. Stærsti hópurinn, eða ríflega 38 prósent, er beggja blands.
Þetta má lesa út úr nýrri könnun frá Maskínu.
Þá eru um 40 prósent hlynnt veggjöldum ef þau flýta fyrir vegaframkvæmdum og önnur 40% andvíg þeim (20% liggja þar á milli), samkvæmt tilkynningu frá Maskínu.
„Líkt og með einkaframkvæmd í samgöngum eru elstu Íslendingar hlynntari veggjöldum sem myndu flýta fyrir vegaframkvæmdum en þeir yngri, eða um helmingur þeirra. Þá eykst stuðningur við veggjöld með lengri skólagöngu og hærri tekjum. Skoðun á veggjöldum sem flýttu fyrir vegaframkvæmdum skiptist eftir flokkspólitík svipað og skoðun á einkaframkvæmd í samgöngum. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins (56,7%) og Viðreisnar (57,0%) er hlynntur slíkum veggjöldum, en aðeins sjöundi partur kjósenda Flokks fólksins (26,8%),“ segir í tilkynningu frá Maskínu.
Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.
Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14.-28. desember 2018.