Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, tilkynnti í gær að hann ætli að hætta hjá bankanum eftir sex ár í embætti. Þrjú ár eru þar til skipunartíma hans lýkur en hann var endurkjörin til fimm ára árið 2017. Framkvæmdastjóri bankans, Kristalina Georgieva, tekur við sem forseti tímabundið þegar Kim hættir um næstu mánaðamót. Frá þessu var greint á vef BBC í dag.
Kim ætlar að snúa sér að einkageiranum
Engin ástæða hefur verið gefin fyrir ákvörðun Kim önnur en hann ætli að snúa aftur í einkageirann um mánaðamótin. Í tilkynningu frá Alþjóðabankanum segir að Kim ætli nú að ráða sig til fyrirtækis sem sérhæfir sig í fjárfestingum í innviðum í þróunarlöndum. Í tíð Kim sem forseta bankans var markmið um að eyða algerri fátækt í heiminum fyrir árið 2030 samþykkt.
Samkvæmt frétt BBC hefur Kim forðast að malda í móinn við Donald Trump, Bandaríkjaforseta, opinberlega en þeim greinir sérstaklega á um loftslagsmál. Í tíð Kim hefur Alþjóðabankinn hætt að lána fyrir kolaorkuverkefnum á sama tíma og Trump hefur reynt að bjarga deyjandi kolaiðnað í Bandaríkjunum. Á síðasta ári fékk bankinn 13 milljarða aukalega eftir að fallist var á kröfur Trump um að haldið væri aftur af lánveitingum til ríkja á borð við Kína, sem njóta mikillar hagsældar en eru skilgreind sem þróunarríki.
Hefð að Bandaríkjastjórn tilnefni forseta Alþjóðabankans
Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn voru stofnaðir á ráðstefnu í Bretton Woods í Bandaríkjunum árið 1944. Alþjóðabankanum hefur það frumhlutverk að lána þróunarlöndum peninga en 189 þjóðir heims eru aðilar að bankanum.
Alþjóðabankinn segir að hafist verði handar nú þegar til að finna varanlegan eftirmann Kim. Óskrifuð regla Alþjóðabankans segir að æðsti yfirmaður hans sé alltaf valinn af stærsta hluthafanum , sem eru Bandaríkin. Evrópuríki fái hins vegar að velja æðsta yfirmann Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Kim, sem er Bandaríkjamaður af kóreskum ættum, var tilnefndur af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Því er talið að ákvörðun Kim gefi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, tækifæri til þess að hafa áhrif á hver muni taka við stjórnartaumunum í Alþjóðabankanum.