WOW air hefur þurft að fella niður flugferðir til minnst sex flugvalla. Félagið segir að endurskipulagning leiðakerfis og fækkun í flota skýri þessar niðurfellingar. Þetta á við staði á borð við Los Angelels, San Francisco, Nýju Delí og Chicago en einnig hafa einstaka flug til Kaupmannahafnar, Mílanó og London verið felld niður. Ekki er vitað hversu margar ferðir hafa verið felldar niður í heildina. Frá þessu var greint í fréttatíma RÚV í gær.
Endurskipulagning í rekstri
WOW air segir að reynst hafi flugfélaginu nauðsynlegt að fella niður flug í ljósi endurskipulagningar á leiðakerfi félagsins og fækkunar í flota. Flugfélagið tilkynnti um mikinn samdrátt í rekstri flugfélagsins um miðjan desember á síðasta ári. Fjölda starfsmanna var sagt upp, flugvélum félagsins var fækkað úr tuttugu og fjórum í ellefu, flugtímar WOW air á Gatwick voru seldir og tilkynnt var að áfangastöðum yrði fækkað. Um svipað leiti, þann 14. desember var tilkynnt að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners gæti fjárfest í félaginu upp á allt að 75 milljónir dala, um 9,4 milljarða króna.
Farþegar ættu að geta óskað eftir því að flugfélagið útvegi þeim nýtt flug á lokaáfangastað
Í svari WOW air við fyrirspurn fréttastofu RÚV segir að öllum farþegum flugfélagsins sé boðið að fá endurgreitt eða velja nýjan áfangastað. Á vef Neytendasamtakanna kemur aftur á móti fram að farþegar ættu að geta valið um endurgreiðslu eða óska eftir því að flugfélagið útvegi þeim nýtt flug á lokaáfangastað.
Í frétt á vef Neytendasamtakanna í gær segir að samtökunum hafi borist nokkur fjöldi fyrirspurna vegna aflýsingar á Indlandsflugi og neytendum er því bent á reglugerð um réttindi flugfarþega. Fram kemur að farþegar hafi kvartað undan því að þeim hafi eingöngu verið boðin endurgreiðsla á farmiðum, ýmist í formi peninga eða gjafabréfs.
Samtökin benda á að réttindi flugfarþega veiti farþegum rétt á þremur valkostum þegar flugi er aflýst. Kostirnir eru í fyrsta lagi að fá endurgreiðslu á ferðinni, í öðru lagi að fá flugferðinni breytt til þess að komast á áfangastað eins fljótt og unnt er eða að breyta flugleið þannig að farþeginn komist á áfangastað síðar meir við fyrsta hentugleika. Farþegar hafa þannig val um hvort þeir vilja fá endurgreiðslu á flugmiðanum eða óska eftir því að flugfélagið útvegi þeim nýtt flug til lokaákvörðunarstaðar.
Eftir tvær vikur leggur WOW air niður flug sitt til Nýju Delí
Wow Air tilkynnti í maí á síðasta ári að flugfélagið hæfi beint áætlunarflug til Indlands í desember. Fyrir mánuði síðan fór síðan breiðþota WOW air í sína fyrstu ferð til Nýju Delí. Um borð var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem hélt utan í tilefni af því að nú væru komnar á flugsamgöngur á milli Íslands og Indlands. Stuttu seinna var síðan tilkynnt að flugleiðin til Indlands yrði lögð niður 20. janúar næstkomandi.