Tæplega 800 umsagnir hafa verið sendar inn um samgönguáætlun 2019 til 2033 en aldrei áður hafa jafnmargar umsagnir verið sendar inn um eitthvert þingmál, samkvæmt skrifstofu Alþingis. Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál en þetta gríðarlega magn umsagna má rekja til heimasíðu þar sem almenning er gert auðveldara fyrir að senda inn umsögn um samgönguáætlun. Að baki heimasíðunnar er Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata en samkvæmt honum fjalla rúmlega 700 umsagnir um veggjaldaáætlun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Vildi auðvelda fólki að senda inn umsögn
Á síðunni Veggjöld? er almenning boðið að senda inn umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar um stefnumarkandi áform meirihluta nefndarinnar um veggjaldaframkvæmdir. Á síðunni er í boði að velja á milli tveggja takka, annars vegar „ég andmæli áformum um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meiri hluta Umhverfis- og samgöngunefndar eða „ég styð áform um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Með því að smella á annan hvorn takkann opnast tölvupóstur þar sem búið er að fylla inn allar þær upplýsingar sem þarf til að senda inn umsögn um samgönguáætlun ásamt annarri hvorri ofangreindri setningu. Aðeins þarf að bæta við nafni sendana en einnig er í boði að breyta eða bæta við textann.
Í samtali við Kjarnann segir Björn Leví að hann hafi búið til heimasíðuna með það fyrir augum að auðvelda fólki að senda inn umsögn um samgönguáætlun 2019 til 2033. Björn segir að oft þyki fólki of flókið að senda inn umsögn en merkja þarf umsögnina á ákveðin máta, meðal annars með númeri og heiti þingmáls sem fólk þykir oft ruglandi að finna. Björn Leví bjó því síðu sem fyllir inn allar þær nauðsynlegar upplýsingar sem þarf til að senda inn umsögn. Björn Leví segir að spurningin sem fram kemur á síðunni sé aðeins um áætlanir meirihlutans um gjaldtökur og fólki boðið að taka afstöðu með því en hann segir að einnig standi fólki til boða að breyta textanum og senda inn ítarlegri umsögn.
Hann vakti meðal annars athygli á síðunni á Facebook-síðu sinni í von um að hvetja sem flesta til senda inn umsögn. Hann hvatti fólk til að senda inn umsagnir fyrir daginn í dag svo umsagnirnar myndu skila sér til umhverfis- og samgöngunefndar áður en nefndin fundar um málið í næstu viku.
Öll þingleg meðferð tillagna um vegaskatta er eftir
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur fjallað um samgönguáætlunina frá því að málinu var vísað til nefndarinnar 11. október 2018 en stefnt er að því að afgreiða samgönguáætlun snemma á þessu ári. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, sagði í Silfrinu 16. desember síðastliðinn, að full samstaða væri á meðal ríkisstjórnarflokkanna um afgreiðslu samgönguáætlunar en samkomulag var gert milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um að samgönguáætlun verði í forgangi þegar þing kemur saman að nýju eftir jólafrí.
Þann 19. desember 2018 lagði meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar fram minnisblað um áherslur meirihlutans í samgönguáætlun. Í henni er lagt til að tekið verði upp gjaldtaka á vegum, með það að markmiði að flýta framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun og skapa fjárhagslegt rými fyrir nýjar framkvæmdir. Umhverfis- og samgöngunefndin stefnir á að hittast í næstu viku, á þeim fundi verða tillögur meirihlutans teknar fyrir ásamt innsendum umsögnum um áætlunina.
Formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið gagnrýndur af Rósu Björk Brynjólfsdóttir, þingmanni Vinstri grænna, vegna staðhæfinga Jóns um veggjöld í fjölmiðlum. Hún segir að Jón hafa m.a. sagt að full sátt sé um fjármögnunarleiðirnar en Rósa Björk, sem einnig situr í umhverfis- og samgöngunefnd, bendir á að þær leiðir séu alveg óræddar í þingnefndinni og á Alþinig. Öll þingleg meðferð tillagna um vegaskatt sé eftir og útfærsla þeirra.
Í silfrinu 16. desember sagði Björn Leví að innan Pírata væri hvorki sérstök mótstaða eða stuðningur við veggjöld. Flokkurinn hafi hins vegar bent á að ferlið við að koma veggjöldum inn í samgönguáætlun með nefndaráliti meirihlutans rétt fyrir þinglok hafi verið illa undirbúið enda um stóra ákvörðun að ræða á stuttum tíma. Vildi flokkurinn því að afgreiðslu samgönguáætlunar yrði frestað og málið nægilega vel unnið.
Áform um gjaldtöku
Þær fjármögnunarleiðir sem koma fram í minnisblaði meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar eru byggðar á þrenns konar forsendum. Í fyrsta lagi verði gjaldataka á þremur megin stofnæðum stofnæðum, þ.e. Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, út frá höfuðborgarsvæðinu. Í minnisblaðinu segir að markmið gjaldtöku á þessum leiðum er að flýta framkvæmdum en núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Til að hefja framkvæmdir þurfi að tryggja hagstæða lántöku sem greidd verði með veggjöldum. Í minnisblaðinu segir að innheimtu þeirra verði hætt um leið og framkvæmdirnar verða greiddar upp að fullu.
Í öðru lagi verði ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun, að hluta til með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem verði greidd upp með gjaldtöku. Gjaldtöku verði síðan hætt þegar lán verður greitt upp, segir í minnisblaðinu. Í þriðja lagi verði innheimt veggjald í jarðgöngum á Íslandi. Í minnisblaðinu segir að gjaldtöku í jarðgöngum sé ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga, og hlut í nýbyggingum.
Meirihluti umsagnanna andvíg veggjöldum
Björn Leví birti Facebook-færslu í dag þar sem hann birti tölfræði sína um umsagnirnar en hann segiri þetta vera met fjölda umsagna. Alls bárust um 786 umsagnir og þar af rúmlega 700 um veggjaldaáætlunina en tæpar 70 um samgönguáætlunina sjálfa, samkvæmt Birni. Í færslunni segir hann að af 633 umsögnum eru 93 prósent andvíg veggjaldaáætlun en 7 prósent styðjandi.
Aðspurður segir Björn að það hafi komið honum óvart hversu stór meirihluti var andvígur tillögum meirihlutans um gjaldtöku en hann bendir þó á að þeir sem sendi inn umsagnir eru yfirleitt þeir sem hafi sterkar skoðanir á málefninu. Hann bætir við að sumar umsagnanna voru mjög ýtarlegar en aðrar stuttar og hnitmiðaðar.
„Mig langar til þess að þakka þeim sem sendu umsagnir. Heildarfjöldi umsagna er nú 773 umsagnir þar sem tæpar 70 bárust um samgönguáætlunina sjálfa og (enn sem komið er) um 700 um veggjaldaáætlun meiri hluta. Þetta er met í fjölda umsagna, til hamingju þið og takk kærlega fyrir að sýna þessu áhuga.“ segir að lokum í Facebook-færslunni.
Ég er búinn að fara yfir 644 umsagnir um veggjaldaáætlun meiri hlutans. Margar athugasemdir eru ítarlegar, aðrar stuttar...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, January 9, 2019