Heildarkostnaður vegna viðgerða á húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins mun verða í kringum 1.420 milljónir króna en kostnaður þeirra áfanga sem lokið hefur verið við nemur samtals um 860 milljónum króna á verðlagi í október síðastliðnum. Unnið er að þriðja og síðasta áfanga heildarframkvæmdarinnar, sem eru innanhússframkvæmdir við austurhluta 2. og 3. hæðar hússins. Áætlaður kostnaður vegna þessa síðasta áfanga er um 560 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að þessum lokaáfanga ljúki á seinni hluta ársins 2019.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um viðgerðarkostnað ráðuneytisins sem birtist í dag á vef Alþingis.
Framkvæmdir við endurnýjun á Arnarhvoli hófust árið 2013 og standa þær enn yfir. Þær fela í sér allsherjarendurbætur á húsinu en í svari ráðherra segir að þær hafi verið orðnar löngu tímabærar.
Húsið algerlega endurnýjað að innan
„Vesturhluti Arnarhvols var byggður um 1929 samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, og austurhlutinn nokkrum áratugum síðar. Þótt húsið hafi verið vandað og traustbyggt á sínum tíma hafði það fengið afar lítið viðhald undanfarna áratugi og var orðið í slæmu ásigkomulagi utan sem innan, enda leiddi úttekt Framkvæmdasýslu ríkisins í ljós að ytra byrði þess lá undir skemmdum. Ljóst var að vinna þurfti að endurgerð Arnarhvols af mikilli vandvirkni og gæta þess að halda að öllu leyti í upphaflegan byggingarstíl hússins og ytra byrði,“ segir í svarinu.
Að utan þurfti að endurnýja alla 244 glugga hússins, þak og þakvirki, auk þess sem útveggir hússins voru steinaðir að nýju. Að innan þurfti að fjarlægja alla veggi, loftplötur, gólfefni, eldri innréttingar og lagnir. Hefur húsið verið algerlega endurnýjað að innan, þar með talið allar lagnir, loftræsting og rafmagnskerfi hússins, auk þess sem húsnæðið hefur verið endurinnréttað í samræmi við nútímahugmyndir um opin og virknimiðuð vinnurými. Í svarinu er tekið fram að sú breyting hafi tekist mjög vel.
Jafnframt hafi hindrunum verið rutt úr vegi til að tryggja aðgengi fólks með fötlun. Meðal annars hafi verið sett upp lyfta sem ekki var áður í húsinu. Skipuleggja þurfti allar endurbætur við húsið og áfangaskipta þeim þannig að fjármála- og efnahagsráðuneytið gæti haldið uppi fullri starfsemi í húsinu á framkvæmdatímanum.
Hundrað manns verða í húsinu að framkvæmdum loknum
Þegar framkvæmdum verður lokið mun öll starfsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins verða komin á einn stað en hún er nú á þremur stöðum. Við upphaf framkvæmda unnu rúmlega sjötíu starfsmenn í Arnarhvoli en þegar framkvæmdum lýkur verða í húsinu rúmlega hundrað manns.
Í svarinu kemur enn fremur fram að meðalkostnaður á brúttófermetra vegna framkvæmdanna á verðlagi í október 2018 sé 108 þúsund krónur vegna utanhússframkvæmda. Varðandi innanhússframkvæmdir sé gert ráð fyrir að heildarkostnaður á brúttófermetra að loknum þriðja áfanga verksins nemi um 309 þúsund krónur.