Greinargerðin „Staðartími á Íslandi – stöðumat og tillögur“ hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur er til 10. mars næstkomandi. Greinargerðin var unnin í forsætisráðuneytinu og í henni er skoðað hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins.
Í frétt forsætisráðuneytisins um málið kemur fram að rannsóknir sýni að nætursvefn Íslendinga sé almennt séð of stuttur en slíkt geti verið heilsuspillandi og haft áhrif á námsárangur og framleiðni í atvinnulífinu. Sérstaklega sé þetta áhyggjuefni vegna barna og ungmenna. Ein líkleg skýring sé að klukkan sé ekki í samræmi við hnattræna legu landsins.
Þrír valkostir eru settir fram í greinargerðinni. Í fyrsta lagi er lagt til að staðan verði óbreytt og klukkan áfram einni klukkustund fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu. Með fræðslu sé fólk aftur á móti hvatt til að ganga fyrr til náða.
Í öðru lagi að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins. Sem dæmi er tekið að ef klukkan er 11:00 nú þá verði hún 10:00 eftir breytingu.
Í þriðja lagi er lagt til að klukkan verði áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Misræmi milli staðartíma og sólartíma
Í greinargerðinni kemur fram að frá árinu 1968 hafi staðartími á Íslandi miðast við miðtíma Greenwich. Sé þannig misræmi milli staðartíma og sólartíma miðað við hnattræna legu landsins sem þýðir að í Reykjavík er sól hæst á lofti um kl. 13:30 en ekki um kl. 12:30 eins og vera ætti ef miðað væri við tímabelti samkvæmt hnattstöðu.
Frá 1939 hafði klukkunni verið flýtt á sumrin og seinkað á veturna og frá 1968 var miðað við svokallaðan sumartíma allan ársins hring. Færsla klukkunnar tvisvar á ári þótti óheppileg og ákveðið var að falla frá henni. Rökin fyrir því að miða fastan tíma árið um kring við sumartíma voru fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis, heppilegra þótti að vera nær Evrópu í tíma og talið var jákvætt að dagsbirta myndi nýtast betur á vökutíma landsmanna. Neikvæð áhrif myrkari vetrarmorgna voru talin minni en ávinningur af birtu síðdegis.
Vildu að íslenskur tími væri í takt við tíma annarra landa
Á vef Almanaks Háskóla Íslands er saga umræðna um tímareikning rakin. Þar er meðal annars greint frá því að í kjölfar breytinganna 1968 hafi ríkt friður um tímareikninginn í aldarfjórðung. Það var svo 1994 sem fram kom þingmál þar sem lögð var til breyting, raunar í þá átt að flýta klukkunni enn frekar til að íslenskur tími væri meira í takt við tíma helstu markaðslanda okkar að sumri til og að auka framleiðni í atvinnulífinu.
Í kjölfar þeirrar tillögu var lagt fram frumvarp 1995 sem var endurflutt 1998 og 2000 og þingsályktunartillaga sama efnis 2006. 2010 kom fram tillaga sem gekk í þá átt að seinka klukkunni og í kjölfarið tillögur sama efnis 2013, 2014 og 2015. Í umsögnum sem bárust þinginu vegna síðarnefndu tillagnanna var fyrst og fremst bent á lýðheilsurök. Á sviði læknavísinda og geðræktar kom fram jákvætt viðhorf til þess að færa klukkuna nær sólargangi en á hinn bóginn hafa til dæmis íþróttasamtök bent á skertan möguleika til útivistar síðdegis.
Tímabundið misræmi hefur áhrif á velferð og vellíðan
Þau þingmál sem hafa komið fram síðustu ár endurspegla að undanfarið hefur athygli manna beinst í auknum mæli að áhrifum sólarljóss og birtu á heilsu og líðan fólks. Fjöldi vísindarannsókna á þessu sviði liggur fyrir og Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði 2017 voru veitt fyrir rannsóknir á erfða og sameindalíffræði dægurklukkunnar. Í greinargerðinni er samantekt um Nóbelsverðlaunin lauslega þýdd:
„Með ótrúlegri nákvæmni lagar innri klukkan líkamsstarfsemi okkar að ólíkum tímum dags. Innri klukkan stýrir mikilvægum þáttum eins og hegðun, magni hormóna, svefni, líkamshita og efnaskiptum. Tímabundið misræmi milli ytra umhverfis og innri líkamsklukku hefur áhrif á velferð okkar og vellíðan, til dæmis þegar ferðast er milli tímabelta og fólk upplifir „þotuþreytu“. Einnig er ýmislegt sem bendir til þess að viðvarandi misræmi milli lífsstíls og taktsins sem líkamsklukkan stýrir tengist aukinni hættu á margvíslegum sjúkdómum.“
Ekki hægt að horfa fram hjá niðurstöðum rannsókna
Starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra skilaði greinargerð fyrr á árinu um ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna til samræmis við gang sólar. Samkvæmt greinargerðinni hafa niðurstöður vísindarannsókna hin síðari ár leitt í ljós neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar þess að miða við of fljótan staðartíma, líkt og nú er gert hér á landi.
Í greinargerðinni segir að ekki verði horft fram hjá niðurstöðum vísindarannsókna sem sýna fram á áhrif sólarljóss og birtu á heilsu og líðan fólks. Taktur dagsins – klukkan – varði alla landsmenn, atvinnulíf og stjórnsýslu á margvíslegan hátt. Því hafi ríkisstjórnin samþykkt að hefja skoðun á því hvort breyta eigi tímareikningi á Íslandi og færa klukkuna nær raunverulegum sólartíma miðað við hnattstöðu. Liður í þeirri skoðun sé að efna til víðtæks samráðs um málefnið og eru þau sem láta sig málið varða, almenningur jafnt sem fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, hvött til að kynna sér málið og senda sín sjónarmið og tillögur í samráðsgátt Stjórnarráðsins.