Landlæknir telur að aldursgreining á tönnum samræmist siðareglum lækna. Hún segir að ekki verði annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinni aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstakling. Landlæknir segir jafnframt að réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanni Samfylkingarinnar, um aldursgreiningar og siðareglur lækna.
Aldursgreiningar á tönnum notaðar hér á landi
Notast er við aldursgreiningar á tönnum hér á landi til að skera úr um aldur fylgdarlausra barna ef vafi leikur á um hvort viðkomandi sé eldri eða yngri en átján ára. Framkvæmdin hefur aftur á móti þótt umdeild en Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið og Rauði krossinn hafa öll gagnrýnt slíkar aldursgreiningar. Greiningarnar hafa verið gagnrýndar fyrir að fela í sér inngrip og að niðurstöður þeirra séu óáreiðanlegar og ónákvæmar. Fylgdarlaus börn undir 18 ára aldri njóta mun meiri réttinda en hælisleitendur sem eru eldri en 18 ára. Þau eru sjálfkrafa metin í viðkvæmri stöðu og til dæmis má ekki vísa fylgdarlausu barni úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleiri samtök hafa talað fyrir heildstæðu mati á aldri ungra hælisleitenda sem byggir ekki einungis á líkamsrannsóknum heldur ætti það fyrst og fremst að byggja á faglegu mati barnasálfræðinga og lækna, og taka þyrfti fullt tillit til umhverfis- og menningarlegra aðstæðna ungmennanna.
Sendi fyrirspurn um aldursgreiningar á þrjá ráðherra
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sendi fyrirspurn varðandi aldursgreiningar á þrjá ráðherra, dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Í fyrirspurn hans til heilbrigðisráðherra spyr Logi ráðherra um hvort hún telji að framkvæmd aldursgreininga á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega tanngreiningu, samræmist siðareglum lækna. Í fyrirspurninni er einnig spurt um hvort að heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð sig um afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga og hver hún væri ef svo væri.
Í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, segir að ráðherra hafi óskað eftir áliti landlæknis um hvort aldursgreining á tönnum samræmist lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Í umsögn Ölmu Dagbjartar Möller, landlæknis, segir að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstakling.
Hún segir jafnframt að réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Landlæknir bætir við að nákvæmni aldursgreininga á tönnum sé umtalsverð en ekki óskeikul, frekar en aðrar læknisfræðilegar rannsóknir. Í svari ráðherra segir að öðru leyti sé ráðherra ekki kunnugt um að heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð sig um afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga.
Logi sendi einnig fyrirspurn á dómsmálaráðherra þar sem ráðherra var spurður hvort hún telji líkamlegar aldursgreiningar siðferðislega réttlætanlegar eða nauðsynlegar í núverandi mynd og í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig er leitast eftir svörum um hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað á grundvelli tanngreininga hér á landi.
Í fyrirspurninni til mennta og menningarráðherra snýr fyrirspurnin að því hvort ráðherra finnst ásættanlegt að opinber menntastofnun, tannlæknadeild Háskóla Íslands, framkvæmi umdeildar aldursgreiningar á viðkvæmum hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd fyrir Útlendingastofnun sem nýti síðar niðurstöður greiningarinnar við úrskurði um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi
Háskólasstarfsmenn og doktorsnemar hafa mótmælt tanngreiningum á hælisleitendum
Yfir hundrað starfsmenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands sendu frá sér yfirlýsingu á síðasta ári, þar sem tekin var afstaða gegn tanngreiningum á hælisleitendum sem nú fari fram innan Háskóla Íslands. Í september á síðasta ári greindi Stundin frá því að Háskóli Íslands og Útlendingastofnun ynnu að gerð þjónustusamnings um aldursgreiningar á tönnum hælisleitenda. Hingað til hefur tannlæknadeild HÍ framkvæmt tanngreiningar á fylgdarlausum ungmennum án þess að þjónustusamningur sé fyrir hendi.
Í yfirlýsingunum er bent á að tanngreiningar á hælisleitendum fari gegn vísindasiðareglum skólans en þær kveða á um að rannsakendur skuli ekki skaða hagsmuni þeirra sem tilheyra hópi í erfiðri stöðu. Þá hafa þeir bent á samfélagslegt hlutverk menntastofnana sem og mikilvægi þess að akademískar stofnanir framkvæmi ekki aðgerðir lögvalds á borð við Útlendingastofnunar.
Í yfirlýsingunum var háskólinn eindregið hvattur til að láta af samningsgerð við Útlendingastofnun um áframhaldandi tanngreiningar á aldri hælisleitenda innan veggja Háskóla Íslands. Stúdentaráð Háskóla Íslands og Landssamtök íslenskra stúdenta, hafa einnig sent frá sér sambærilegar yfirlýsingar