Á bilinu 51 til 52 prósent landsmanna eru á þeirri skoðun að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, eigi að segja af sér sem þingmaður. Tæplega þriðjungur, eða 32 prósent, eru í meðallagi hlynnt því en 17 prósent landsmanna eru andvígir.
Alls eru 48,3 prósent kjósenda Samfylkingarinnar á þeirri skoðun að Ágúst Ólafur eigi að segja af sér. Kjósendur Miðflokksins eru andvígastir afsögn hans, en 45,8 prósent telja að hann eigi ekki að segja af sér þingmennsku. Kjósendur Pírata og Framsóknarflokks eru hlynntastir afsögn Ágústar Ólafs.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu. Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14-28. desember 2018. Spurt var: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar segi af sér?“
Í könnun Maskínu kemur fram eldri Íslendingar eru líklegri til þess að vera andvígir afsögn Ágústar Ólafs, þeir sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun eru hlynntastir afsögn Ágústs Ólafs (58,8 prósent) og háskólamenntaðir andvígastir(19,3 prósent).
Maskína gerði sambærilega könnun á skoðun landsmanna gagnvart afsögn alþingismannanna sex sem áttu umdeild samskipti á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn, sem tekin voru upp og birt í fjölmiðlum. Niðurstaðan þar var að á milli 74 og 91 prósent Íslendinga voru hlynnt afsögn alþingismannanna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, ætti að segja af sér (91 prósent) en næstum jafn háu hlutfalli fannst að Bergþór Ólason, annars þingmaður sama flokks, ætti að gera það (90 prósent). Þá sögðust 86 prósent vera þeirrar skoðunar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ætti að segja af sér og 85 prósent að Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins og nú óháður, ætti að gera slíkt. 82 prósent landsmanna vildu að Ólafur Ísleifsson, sem var rekinn úr Flokki fólksins ásamt Karli Gauta og situr nú sem óháður, ætti að víkja og 74 prósent vildu að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins myndi gera slíkt.
Bæði Gunnar Bragi og Bergþór fóru í leyfi frá störfum líkt og Ágúst Ólafur en enginn sexmenninganna hefur sagt af sér þingmennsku.