Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur lagt til við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að stofnað verði nýtt embætti Umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks. Þuríður Harpa afhenti Katrínu skriflega og rökstudda tillögu um þetta á fundinum.
Formleg tillaga um þetta var lögð fram á fundi formanna ÖBÍ, Þroskahjálpar og forsætisráðherra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu, en fjallað er um fund Þuríðar Hörpu með Katrínu á vef bandalagsins.
Samkvæmt tillögunni yrði hlutverk umboðsmanns fatlaðs og langveiks fólks að taka við erindum frá einstaklingum og fella úrskurði út frá gildandi lögum, sem væru til grundvallar skaðabótamála ef ekki er brugðist við. Þá hefði embættið það hlutverk að benda stjórnvöldum á gloppur í íslenskri löggjöf um mannréttindi út frá skuldbindingum alþjóðasáttmála.
„Grundvallarmarkmið í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til að njóta sömu mannréttinda og aðrir samfélagsþegnar og skyldu aðildarríkjanna til að tryggja þau. Embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og sjúklinga væri liður í innleiðingu og lögfestingu SRFF,“ segir á vef Öryrkjabandalags Íslands.
Fram kemur í tillögu ÖBÍ að sams konar embætti eru starfrækt annars staðar á Norðurlöndunum. Mikilvægt sé að svona embætti verði sett á stofn hérlendis sem fyrst enda hljóti það að vera vilji stjórnvalda að tryggja réttindi þessa hóps og standa þar með jafnfætis þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við.