Engin stofnun á Íslandi safnar tölulegum upplýsingum um eignarhald á félögum og hverjir standa þar að baki. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, segir að á meðan slíkar upplýsingar liggi ekki fyrir sé erfitt að meta umfang kennitöluflakks. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Willum Þór Þórssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, um kennitöluflakk.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa unnið að drögum að frumvarpi um kennitöluflakk að undanförnu og stefnt er að leggja frumvarpið fyrir Alþingi í febrúar á þessu ári. Í skýrslu starfshóps um umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða, sem birt var í júní 2017, segir engu að síður að greina þurfi umfang kennitöluflakks áður en ráðist verði í aðgerðir og ákveðið hve langt þurfi að ganga til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu.
Erfitt að leggja mat á umfang vandans
Í svari ráðherra við fyrirspurn Willums segir að ekki liggi fyrir lagaleg skilgreining á hugtakinu „kennitöluflakk“ en það sé oftast notað um ákveðna misnotkun eigenda atvinnurekstrar í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Kennitöluflakk felist í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum. Tjónið felist gjarnan í því að félög fari í gjaldþrot með skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðarsjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega.
Einnig spyr Willum ráðherra hvort að umfang kennitöluflakks á Íslandi hafi verið kannað á vegum stjórnvalda. Í svari Þórdísar Kolbrúnar segir að fyrir nokkru hafi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kannað leiðir til þess að greina umfang kennitöluflakks á Íslandi. Ráðuneytið leitaði til Hagstofu Íslands, ríkisskattstjóra og fyrirtækjaskrár, tollstjórans í Reykjavík og Ábyrgðarsjóðs launa. En samkvæmt ráðuneytinu safnar engin þessara stofnana né aðrar stofnanir tölulegum upplýsingum um eignarhald á félögum og hverjir standa þar að baki. Þórdís Kolbrún segir því að meðan slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir er erfitt um vik að leggja mat á umfang vandans.
Rúmlega 9000 félög tekin til gjaldþrotaskipta á 10 ára tímabili
Ráðherra bendir þó á að sem vísbendingu um þann fjölda sem kom til greina við skoðun á kennitöluflakki vísa til þess að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru alls 9.250 félög tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu 2003 til 2013, af tæplega 350 þúsund félögum sem voru á skrá á tímabilinu eða hluta þess tíma. Það þýði að um 2 prósent skráðra félaga verða að meðaltali gjaldþrota á ári hverju. Ef eingöngu er tekið mið af félögum sem greiddu laun á tímabilinu eru gjaldþrotin hins vegar að meðaltali um 6 prósent.
Í svarinu kemur einnig fram að alls voru skráð 5.178 ný félög á árunum frá 2008 til 2012, þar af voru 259 einstaklingar að skipta um kennitölu. Það þýðir að um 2 prósent einstaklinga voru að meðaltali að skipta um kennitölu af þeim fjölda kennitalna sem voru teknar í notkun á þessu fimm ára tímabili. Þessar tölur sýna þó eingöngu félög sem voru með fleiri en fimm starfsmenn í vinnu hjá sér, það vantar upplýsingar um smærri félög en í svarinu segir að mögulega sé tíðni á breytingu á könnutölu hærri hjá þeim smærri en stærri.
Ráðherra bendir þó á að ekki sé hægt að álykta að allir þeir sem skiptu um kennitölu hafi gert slíkt í þeim tilgangi að losna við skuldir en myndin sýnir þó þann fjölda fyrirtækja með fleiri en fimm starfsmenn sem kæmi til álita vegna kennitöluflakks.
Ekki vitað hvert árlegt tap ríkissjóðs sé vegna kennitöluflakks
Í fyrirspurn Willums er einnig leitast eftir svörum um hvort unnt hafi verið að meta hversu miklum skatttekjum ríkissjóður hafi orðið af vegna kennitöluflakks eða hvert árlegt tap ríkissjóðsins vegna þess. Þórdís Kolbrún segir að þær upplýsingar liggi ekki fyrir, hún bendir á skýrslu starfshóps frá 20. júní 2017, um umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða sé kafli um kennitöluflakk. Í skýrslunni er ekki finna fjárhagslegt mat á tapi kennitöluflakks en jafnframt er greint frá því að nauðsynlegt sé að greina umfang kennitöluflakks áður en ráðist verði í aðgerðir og ákveðið hve langt þurfi að ganga til að koma í veg fyrir framangreinda misnotkun á kerfinu.
Í umfjöllun Tíundar, tölublaði ríkisskattstjóra, um kennitöluflakk í janúar 2016 segir að áætlað sé að ríkissjóður fari á mis við 80 milljarða króna vegna skattundanskota á ári hverju og að kennitöluflakk sé hluti vandans.
Frumvarp um kennitöluflakk í febrúar
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið stefna því að leggja fram frumvarp um kennitöluflakk á Alþingi i febrúar 2018. Frumvarpið er afrakstur ráðuneytanna eftir að hafa undanfarin misseri haft til skoðunar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri.
Markmið frumvarpsins er að bregðast við misnotkun á hlutafélagsforminu, og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann. Þetta kemur fram í svari ráðherra við spurningu um hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að sporna við kennitöluflakki en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ríkisstjórnin vilji vinna með aðilum vinnumarkaðarins við að vinna gegn kennitöluflakki hér á landi.