Laun borgarfulltrúa og starfskostnaður þeirra hækkaði í janúar á þessu ári. Laun nema nú rúmum 742 þúsund krónum og starfskostnaðurinn tæpum 54 þúsund krónum. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Á fundi forsætisnefndar borgarinnar síðastliðinn föstudag var lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar um að grunnlaun borgarfulltrúa hefðu verið hækkuð til samræmis við breytingu á launavísitölu. Laun eru hækkuð tvisvar á ári, segir í fréttinni.
Í bréfinu kemur fram að launin hafi hækkað um 15.600 krónur og séu því nú 742.357 krónur. Starfskostnaðurinn hækkaði um 1.100 krónur og er nú 53.613 krónur. Borgarfulltrúar fá því 795.970 krónur á mánuði.
„Í samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa kemur fram að borgarfulltrúar þiggja föst laun fyrir störf sín hjá Reykjavíkurborg samkvæmt samþykkt borgarstjórnar 4. apríl 2017. Þetta eru grunnlaun borgarfulltrúa og uppfærast í janúar og júlí ár hvert miðað við þróun launavísitölu. Í grunnlaununum felast að fullu greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar, þ.m.t. formennsku í öðrum nefndum en fastanefndum, innkomur sem varamenn og setur sem áheyrnarfulltrúar,“ segir í bréfinu.