Stjórn Flokks fólksins sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um fjármál Flokks fólksins. Í yfirlýsingunni segir að öll fjármál Flokks fólksins hafi verið lögð fram árlega og skilvíslega undir skoðun löggilts endurskoðanda og Ríkisendurskoðunar, samkvæmt lögum. Ásamt því hafi ársreikningar flokksins verið lagðir fyrir aðalstjórn, kjörna skoðunarmenn, fjármála- og efnahagsmálanefnd, framkvæmdastjórn og landsfund Flokks fólksins til skoðunar og samþykkta áður en þeim er skilað til Ríkisendurskoðunar.
„Í þessu stranga eftirlitsferli allra hlutaðeigandi og ofangreindra aðila hafa aldrei komið fram athugasemdir sem gefa í skyn að fjármál Flokks fólksins séu vafasöm á nokkurn hátt,“ segir í yfirlýsingunni. Jafnframt er bent á að hægt sé að sjá útdrátt af endurskoðunum og samþykktum ársreikningi flokksins á vefsíðu Ríkisendurskoðunar og á vefsíðu Flokks fólksins.
Karl Gauti segir það ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans
Á laugardaginn sakaði Karl Gauti Hjaltason, sem rekinn var úr Flokki fólksins síðla árs 2018, Ingu Sæland formanns Flokks fólksins um óeðlilega fjármálastjórnun í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Í greininni segir að hann hafi margítrekað látið gagnrýni sína á getu Ingu Sæland, formanns flokksins, til að leiða Flokk fólksins í ljós áður en slík gagnrýni náðist á upptöku á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn.
Í greininni gagnrýnir Karl Gauti að Inga Sæland sitji fyrir fjárreiðum flokksins og hann segist ekki geta sættsig við að opinberu fé sé ráðstafað til fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. „Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið,“ segir Karl Gauti.
Í Morgunblaðinu í dag tekur Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins og nú óháður þingmaður, undir gagnrýni Karl Gauti á hendur formanni flokksins. Ólafur segir að þetta sé gagnrýni sem þeir hafi báðir haft uppi og segist sjálfur hafa gert athugasemdir við formann flokksins um fjármálin. „Ég lét uppi við formanninn það sjónarmið að ég teldi ekki rétt að fjármál flokksins væru í höndum kjörinna fulltrúa. Þetta gerðum við strax báðir snemma í nóvember árið 2017 á þingflokksfundi, skömmu eftir að við vorum kjörin á þing. Þegar upp komu ráðagerðir nokkru síðar um að ráða einstakling úr fjölskyldu hennar [á skrifstofu flokksins], þá sögðum við við formanninn að þetta væri eitthvað sem ætti ekki við. Þetta var á fyrri hluta ársins 2018,“ segir Ólafur.
Jafnframt segir í frétt Morgunblaðsins að á síðasta ári hafi þeir þeir Ólafur og Karl Gauti átt fund með ríkisendurskoðanda vegna málsins en Ólafur segir að þeir hafi talið það skyldu sína að upplýsa ríkisendurskoðanda um þessa þætti í starfsemi flokksins. „Eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka er á hendi Ríkisendurskoðunar. Skömmu eftir að nýr maður tók þar við embætti árið 2018 greindum við honum frá þessum staðreyndum og lýstum áhyggjum okkar. Við áttum ágætt samtal við hann um eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka,“ segir Ólafur.
Stjórnin segir að Karl Gauti og Ólafur ættu axla ábyrgð og að segja strax af sér þingmennsku
Að lokum segir í tilkynningunni frá stjórninni að hún ítreki að þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson eigi að axla ábyrgð á eigin gjörðum og segja strax af sér þingmennsku. „Stjórn Flokks fólksins ítrekar fyrri yfirlýsingu sína um að þeir Alþingismenn sem koma fram á upptökunum frá fundi stjórnar miðflokksins, og Ólafs Ísleifssonar þáverandi þingflokksformanns og Karls Gauta Hjaltasonar þáverandi varaformanns þingflokks og þáverandi stjórnarformanns Flokks fólksins, á barnum Klaustri 20. nóvember sl. ættu að axla ábyrgð á eigin gjörðum og segja strax af sér þingmennsku,“ segir í yfirlýsingunni.