Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, segir að hún telji að skoða þurfi hvort að skipa þurfi rannsóknarnefnd Alþingis um sendiherramálið svokallaða. „Það hefur verið rætt við mig óformlega bæði innan og utan þings frá lögspekingum.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Helgu Völu í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur verður klukkan 21 í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Fyrr í dag fór fram fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um sendiherramálið svokallaða. Það er angi af Klausturmálinu, sem snýst um orðræðu sem viðhöfð var í drykkjusamlæti sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klausturbar 20. nóvember 2018. Eitt þeirra viðfangsefna sem þar voru rædd voru pólitísk hrossakaup um sendiherrastöður. Á upptöku Báru Halldórsdóttur af samtali þingmannanna heyrist Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og varaformaður Miðflokksins, ræða hrossakaup um skipan Árna Þórs Sigurðssonar, fyrrverandi þingmanns Vinstri grænna, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sendiherra. Gunnar Bragi sagðist ennfremur hafa sagt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í kjölfarið að honum þætti „sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“
Á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, staðfesta þessa frásögn Gunnars Braga. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar hafi þeir þvertekið fyrir að sagan um loforðið hafi verið sönn. Gunnar Bragi sagðist hafa verið að ljúga upp á Bjarna Benediktsson.
Hvorki Gunnar Bragi né Sigmundur Davíð mættu á fund nefndarinnar í morgun þrátt fyrir að hafa verið boðaðir á hann. Þess í stað sendu þeir yfirlýsingar þar sem þeir gagnrýndu málið allt og sérstaklega Helgu Völu sem formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Hún segir að það liggi fyrir að Gunnar Bragi lýsi stöðunni nákvæmlega þannig á upptökunni frá Klausturbarnum. „Fyrst sögðust þeir ekki hafa sagt þetta. Í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs kom fram að hann teldi að átt hefði verið við upptökuna, eða að það hefði ekki verið búið að rannsaka hvort að átt hefði verið við upptökuna þannig að væntanlega hafi orð verið slitin einhvern veginn úr samhengi eða púsluð einhvern veginn saman til þess að fá þessa útkomu. Það var að minnsta kosti ekkert í orðum þeirra sem mættu í morgun sem benti til þess að þetta lögbrot hefði átt sér stað. Hvert framhaldið verður veit ég ekki. Að minnsta kosti þeir sem þarna voru hafa verið mjög missaga um þetta allt saman.“